Framsókn: styður uppbyggingu laxeldis

Bæjarins besta hefur sent oddvitum allra framboðslista í Norðvesturkjördæmi þrjár spurningar um stefnuna í þremur mikilvægum málum Vestfirðinga, fiskeldi, virkjunvatnsafls og vegagerð í Gufudalssveit.

Hér koma svör Stefáns Vagns Stefánssonar, oddvita Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Varðandi virkjanahugmyndir þá eru það Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun sem eru í nýtingarflokki í Rammaáætlun og svo er það Vatnsfjarðarvirkjun sem Orkubú Vestfjarða hefur áhuga á að láta rannsaka frekar og jafnvel ráðast í.

Hver er afstaða þín og/eða flokksins til þessara virkjunarkosta?

Svör:

Afstaða mín til þessara virkjunakosta er að sú staða sem uppi er í raforkumálum á Vestfjörðum er ekki viðunandi og verður að ráðast í aðgerðir til að jafna þann aðstöðumun sem íbúar á Vestfjörðum búa við. Hvað varðar Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun og er það mín afstaða að þær eigi að nýta í samræmi við rammaáætlun. Slíkt myndi breyta stöðu landshlutans og styrkja hann verulega. Varðandi Vatnsfjarðárvirkjun þá á að skoða þann kost vel en ljóst er að sú virkjun myndi renna en sterkari stoðum undir raforkuöryggi vestfirðinga og auka möguleika landshlutans en frekar til atvinnusköpunar. Rétt er að benda á nýlega könnun þar sem kom fram að fylgni væri á milli hærri launa og þeirra svæða þar sem aðgengi að raforku væri meira. Það undirstrikar mikilvægi þess að fara strax í aðgerðir til að jafna leikinn.

Vegagerð í Gufudalssveit er hafin og á dögunum var lokið samningum við landeigendur. Málið hefur verið umdeilt og verið nærri 20 ár í deiglunni.

Munt þú eða flokkurinn styðja þetta mál eða leitast við að fara aðra leið?

Svör:

Framsóknarflokkurinn hefur barist fyrir þessari framkvæmd og undir forystu Sigurðar Inga samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur þessi árangur náðst. Það er afar mikilvægt að haldið verði áfram í því verkefni að klára þær samgöngubætur sem fyrir liggja á sunnanverðum Vestfjörðum. Fyrir því munum við áfram berjast.

Laxeldi í vestfirskum fjörðum er orðinn stór atvinnuvegur og getur á næstu árum tvöfaldast með nýjum framleiðsluleyfum.

Munt þú og/eða flokkurinn styðja við uppbygginguna og hver er stefnan varðandi þennan atvinnuveg?

Svör:

Já við munum styðja við uppbyggingu laxeldis. Sú jákvæðu áhrif sem laxeldi hefur haft á atvinnu og byggðarþróun á  Vestfjörðum er af þeirri stærðargráðu að ekki verður framhjá henni litið. Framsóknarflokkurinn hefur stutt við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og mun gera það áfram. Það þarf hinsvegar að ráðast í heildarendurskoðun á lagaumgjörð laxeldis og tryggja að byggðarlögin fái réttlátan hluta af þeim tekjum sem af atvinnugreini skapar til að byggja upp þá þjónustu sem nauðsynlegt er að fara í vegna fjölgunar íbúa og aukinna krafna atvinnulífsins um þjónustu. Jafnframt þarf að tryggja að eftirlit með greininni sé eflt og að sá eftirlitsiðnaður verði byggður upp í nærumhverfi greinarinnar en ekki á höfuðborgarsvæðinu.

DEILA