Vestfirðir: fjölgaði um 27 manns í júlí

Frá Bíldudal. Þjónustubátur við fiskeldið á leið í höfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 27 í júlímánuði og voru þeir 7.179 þann 1. ágúst samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands. Mest fjölgaði í Vesturbyggð en þar bættust 18 íbúar við í mánuðinum og eru þeir núna 1.120 og hefur fjölgað um 55 frá 1. desember 2020. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 9 manns í júlí en í Bolungavík fækkaði 12 manns og eru íbúar þar 936.

Síðustu átta mánuði hefur fjölgunin á Vestfjörðum verið 1,1% sem er það sama og heildarfjölgunin á landinu. Á fjórum landssvæðum hefur íbúafjölgunin verið undir landsmeðaltalinu. Það er á Norðurlandi vestra, þar sem fjölgunin var aðeins 0,1% og á Höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi eystra og Vesturlandi en á þessum svæðum varð fjölgunin 1,0%.

Íbúafjölgunin frá 1. desember 2020 hefur verið meiri en landsmeðaltalið á þremur landssvæðum. Það er á Suðurlandi 1,8%, Austurlandi 1,5% og á Suðurnesjum 1,3%. Þetta er óvenjuleg þróun þar sem mest fjölgun verður utan Höfuðborgarsvæðisins og það sem er enn óvenjulegra að á landssvæðum sem lengst eru frá Höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum og Austurlandi er fjölgunin meiri en þar.

DEILA