Skipulagsstofnun : rafstrengur í Arnarfirði milli Mjólkár og Bíldudals ekki í umhverfismat

Mjólkárvirkjun. Mynd: Orkubú Vestfjarða.

Skipulagsstofnun hefur kynnt þá ákvörðun sína að lagning 66 kV rafstrengs í Arnarfirði milli Mjólkár og Bíldudals sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum þar sem framkvæmdin sé ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þessi ákvörðun er kæranleg til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál til 30. ágúst n.k.

Fyrirhugað er að leggja 66 kV jarðstreng og sæstreng milli Mjólkár og Bíldudals í Arnarfirði. Jarðstrengurinn mun liggja á um 16 km löngum kafla frá Mjólkárvirkjun í botni Borgarfjarðar, meðfram þjóðvegi nr. 60 að Auðkúlubót vestan Hrafnseyrar og mun svo sæstrengur á um 11 km kafla taka við þvert yfir Arnarfjörð að Haganesi. Frá Haganesi verður um 3 km langur jarðstrengur að nýju tengivirki syðst í Bíldudal. Á Bíldudal þarf að byggja 120 m² og 5 m hátt 66 kV tengivirki með þremur rofareitum. Einnig verður bætt við nýjum rofareit við núverandi tengivirki við Mjólkárvirkjun.

Skipulagsstofnun leitaði umsagna Ísafjarðarbæjar, Vesturbyggðar, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Minjastofnunar Íslands, Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar.
Skipulagsstofnun leitaði viðbragða eftirtalinna hagsmunaaðila: Arctic Fish, Arnarlax, Íslenska kalkþörungafélagið ehf., Strandveiðifélagið Krók – félag smábátaeigenda í Barðastrandasýslu, Eldingu – félag smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum og Björn Magnús Magnússon (v/rækjuveiða).

Framkvæmdin er háð framkvæmdaleyfi Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar skv. skipulagslögum og reglugerð um framkvæmdaleyfi, auk leyfis Fiskistofu vegna framkvæmda við ár og vötn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.


Skipulagsstofnun bendir á að áform eru um stofnun þjóðgarðs á Vesturfjörðum og mun lagning jarðstrengs frá Mjólká að landtaki í Auðkúlubót verða að hluta innan marka þjóðgarðs. Gangi þau áform eftir er framkvæmdin háð leyfi Umhverfisstofnunar.

DEILA