Okkar fólk

Á mínum fyrstu starfsárum vann ég á Sólheimum í Grímsnesi í tvígang. Fyrst sumarlangt og seinna frá janúar 1984 til maíloka sama ár. Foreldrar mínir unnu þar svo það var auðveldara að fá vinnu þegar sambönd voru til staðar.

Þegar ég vann um veturinn 1984, vann ég meðal annars á vinnustofum og sá um leikskóla starfsmanna. Á þeim tíma vann fólk á heimiliseiningum í 6 sólarhringa og 3 sólarhringa frí sem svo seinna breyttist í 4/4. Ég veit ekki hvernig þessu er háttað núna en í dag eru fatlaðir í sinni eigin búsetu, leigja húsnæði og borga heimilis kostnað sjálf en á þeim tíma sem að ég vann var þetta ríkisrekið batterí. Ríkið tók yfir reksturinn og launakostnað 1983, lækkaði framlög og greiddi engan viðhaldskostnað í 10 ár. Fyrir áhugasama þá set ég hér inn slóð sem vísar á sögu Sólheima. Mæli líka eindregið með að fólk leggi leið sína þangað.

https://www.solheimar.is/pages/saga-solheima

Eitt sinn tók ég aukavakt á heimiliseiningu og komu þar foreldrar að heimsækja drenginn sinn og þessari heimsókn gleymi ég aldrei. Foreldrarnir komu langt að en þau bjuggu í Ísafjarðardjúpi. Venjulega komu aðstandendur bara í snögga heimsókn eða part úr degi en þessi hjón fengu að gista og voru alfarið með okkur á meðan á heimsókn þeirra stóð. Það sem að situr sterkast í mér er þakklæti þeirra til starfsfólksins sem hugsaði um son þeirra. Þau sáu að honum leið vel og var í góðu jafnvægi. Sonurinn var og er jafnaldri minn. Þegar þau kvöddu táruðust þau og ítrekuðu þakklæti sitt. Það var ekki auðvelt að láta soninn á stofnun og hvað þá svona langt í burtu. Drengurinn tjáði sig ekki og sagði ekki nema einstaka orð. Ég veit ekki hversu mörg ár hann var á Sólheimum en frétti 2017 að hann væri á sambýli á Ísafirði og þá táraðist ég að vita að hann væri enn á lífi og að hann væri nálægt sínu fólki en ekki svona hræðilega langt í burtu.

Ég vil að við önnumst okkar fólk. Ég vil að sú þjónusta fari fram í heimabyggð eins mikið og þess er kostur. Hér áður fyrr var reksturinn á vegum ríkisins en fór svo smám saman yfir á sveitarfélögin sem sum hver ef ekki flest öll standa illa undir því og þá stöðu þarf ríkið að jafna.

Kær kveðja

Jónína Björg Magnúsdóttir

2.frambjóðandi Samfylkingarinnar í Norð-Vestur kjördæmi.

DEILA