Blúshátíðin á Patreksfirði

Blús milli fjalls og fjöru  verður haldin 3. og 4. september 2021 á Patreksfirði.

Hátíðin er haldin í tíunda skiptið í ár og Blús milli fjalls og fjöru hefur fest sig rækilega í sessi menningarviðburða á Vestfjörðum.

Frá aðstandendum hátíðarinnar barst fréttatilkynning um hátíðina:

„Á föstudagskvöldið er Blússveit Þollýar, en hún var fyrst til að koma á blúshátíð í sjóræningjahúsið á sínum tíma og er við hæfi að hún og hljómsveit setji hátíðina í ár. Með henni eru þungavigtarmenn í músik, Tryggvi Hufner, Friðrik Karlsson, Jón Guðjónsson og  fl.  Seinna bandið eru kornungir strákar sem kalla sig Fógetarnir. Þeir eru fantagóðir rokkblúsarar og minna um markt á strákana frá í fyrra, sem voru ógleymanlegir. Þetta er nýtt tríó, og okkur er sannur heiður að fá að kynna þá á svið í fyrsta sinn.

Á laugardagskvöldið er einnig nýtt band sem sett var saman fyrir þessa hátíð með valinkunnum listamönnum um áratuga skeið R G P 103 blús band. Þar er góður hópur góðra blúsara, Rúnar Þór Pétursson, Gunnar Örn Sigurðsson, Árni Björnsson, Pjétur Stefánsson og Steinar Helgason.

Að endingu verður rokkblúsbandið Johnny and the rest. Þeir komu hér á Patró fyrir um 20 árum og gerðu allt vitlaust í félagsheimilinu þá, sem og þeir gera eflaust núna líka. Það er okkur sönn ánægja að kynna tvær nýjar hljómsveitir á svið í fyrsta sinn, svo nú er að fjölmenna á Patró og blúsa, rokka og skemmta okkur ærlega eftir þrengingarnar undanfarna 15 mánuði.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Blús milli fjalls og fjöru

– Þar sem blúsinn lifi!“

Forsvarsmaður hátíðarinnar er Páll Hauksson.