Vesturbyggð: skoða áhrif af því að færa laxaslátrun til Patreksfjarðar

Birt hefur verið viðbót við svonefnda innviðagreiningu Vesturbyggðar. Það er verkfræðistofan Efla sem vann viðbótarskýrsluna. Frestur er gefin til að senda inn athugasemdir og/eða ábendingar við viðaukann til og með 15. ágúst nk. Hægt er að senda athugasemdir  á netfangið vesturbyggd@vesturbyggd.is og merkja: Athugasemdir við innviðagreiningu.

Greinndar eru tvær sviðsmyndir, eins og það heitir. Annars vegar þar sem gert er ráð fyrir því að starfsemi við slátrun og vinnslu á eldislaxi hætti og hins vegar að þar sem sú starfsemi byggist áfram upp en mögulega annars staðar innan sveitarfélagsins.

Fram kemur í skýrslunni að meðallaun starfsmanna í fiskeldi hafi vaxið umfram meðallaun annarra atvinnugreina á
undanförnum árum, en á árinu 2019 var launakostnaður á hvern starfsmann í fiskeldi rúmar 9,6 m.kr. samanborið við 8 m.kr. að meðaltali í viðskiptahagkerfinu í heild.

Heimild til framleiðslu af frjóum laxi í sjókvíum í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði er 29.000 tonn en gæti farið upp í 40.000 miðað við áhættumat Hafrannsóknarstofnunar.

Niðurstaða fyrri sviðsmyndarinnar, sem er að slátrun yrði hætt í sveitarfélaginu en eldið héldi áfram, er að fólksfækkun yrði í kringum 130 manns í sveitarfélaginu. Tekið er fram að óvissa ríkir um áhrifin af fækkunnni á afleidd störf.

Seinni sviðsmyndin er athugun á áhrifum þess að flytja slátrunina til innan sveitarfélagsins. Bornir eru saman þrír kostir. Í fyrsta lagi óbreytt staða með slátrun á Bíldudal. Í öðru lagi flutningur innan Bíldudals á nýja landfyllingu og loks að flytja starfsemina til Patreksfjarðar.

Þar er núverandi staðsetning talin lakasti kosturinn þar sem litlir möguleikar eru á stækkun vinnslunnar. Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir:

„Báðar nýju staðsetningarnar sem skoðaðar voru eru vænlegri en núverandi staðsetning hvað er stækkun starfseminnar varðar og ekki er mikill munur á innviðagreiningu þeirra staðsetninga. Staðsetning lóðar fremst á eyrinni á Patreksfirði felur hins vegar í sér hagræði sem er ekki á Strandgötu 9 á Bíldudal. Auk þess er flöt eyrin ekki fullnýtt í nálægð við
fyrirhugaða lóð sem felur í sér sveigjanleika til framtíðar.“

DEILA