Vestri vann Gróttu 4:3 í fjörugum leik

Pétur Bjarnason skorar fjórða mark Vestra og sitt þriðja. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Karlalið Vestra í Lengjudeildinni mætti Gróttu frá Seltjarnarnesi á Olívellinum á Ísafirði í gærkvöldi. Eftir vonbrigði laugardagsins þar sem Vestri tapaði fyrir Selfoss á lokaandartökum leiksins mætti Vestradrengir ákveðnir til leiks. Liðið hafði góð tök á leiknum og leiddi 1:0 í hálfleik eftir mark Péturs Bjarnasonar.

Seinni hálfleikur hófst á svipaðan hátt og Vestri þjarmaði að marki Gróttu og þegar skammt var liðið af hálfleiknum skoraði Pétur Bjarnason aftur með laglegi skallamarki og Vestri kominn í 2:0. Eftir það virtist sem Vestri hægði á leiknum og færi að hugsa um að halda þessari stöðu. Við það færðust Gróttumenn í aukana og áttu hverja sóknina á fætur annarri og hættuleg færi og skot. Markvörður Vestra, Brenton Muhammad, stóð sig vel í markinu og bægði hættunni frá og einu sinni varði hann stórglæsilega skot af stuttu færi. Pressan sagði til sín og Gróttumenn fengu vítaspyrnu á 74. mínútu sem þeir skoruðu úr og það sem verra var að varnarmaðurinn Jesus Maria Meneses Sabater fékk rautt spjald. Eftir það voru Vestramenn einum færri.

Áfram hélt pressa Gróttu og Vestra gekk illa að koma boltanum í leik fram á völlinn og Grótta jafnaði 10 mínútum síðar 2:2. Nú voru aðeins 6 mínútur eftir af venjulegum leiktíma og staðan að verða svört fyrir Vestra.

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst segir máltækið. Eftir jöfnunarmarkið tók Vestri miðju og sendi knöttinn út á vinstri kantinn og þar var varamaðurinn Benedikt Warén sem var ekki að tvínóna við hlutina heldur lék upp kantinn og svo inn á vítateiginn og skoraði með góðu skoti. Vestri tók aftur forystuna 3:2. Leikurinn sveiflaðist aftur Vestra í vil og liðið hélt boltanum vel og byggði upp snarpar sóknir á næstu mínútum. Á 88. mínútu braust Vestramaður af miklu harðfylgi upp hægri kantinn og gaf fyrir markið þar sem Pétur Bjarnason var mættur og skoraði sitt þriðja mark og Vestri kominn í tveggja marka forystu.

Önduðu áhorfendur léttara og töldu úrslitin ráðin enda lítið eftir af leiknum. Nei, öðru nær, Grótta lék sama leik og Vestri skömmu áður, tóku miðju brunuðu í sókn og skoruðu að bragði 4:3. Bætt var 5 mín við leiktímann og dómarinn lét þær líða og 2 mínútur til viðbótar áður en hann flautaði til leiksloka. Sigur Vestra í spennandi seinni hálfleik var sanngjörn niðurstaða.

Ísfirðingarnir Bergmann Ólafsson, Guðmundur Ólafsson og Magnús Reynir Guðmundsson létu sig ekki vanta á leikinn.

DEILA