Uppskrift vikunnar: Uppskrift úr fjörunni

Maríusvunta.

Við gleymum stundum að nýta það sem er okkur næst. Það er ýmislegt sem við getum nýtt úr fjörunni. Þessar uppskriftir fann ég á sínum tíma á vef Reykhóla. Gaman líka að gera að fjölskylduferð að sækja í snakkið og matinn.

Þangsnakk

Takið 300 g nýfengið bóluþang og krydd að eigin vali. Skolið þangið vel og hreinsið burtu ásætur (snigla og slíkt). Klippið þangið í bita, t.d. 3×3 cm. Dreifið kryddinu yfir og setjið á bökunarplötu og álpappír undir. Bakið í 30-40 mín við 130°C eða þar til þangið er orðið stökkt.

Blöðruþang.

Súpa með maríusvuntu

5 dl vatn

2 saxaðar gulrætur

2 stórar maríusvuntur

2 dl kjúklingabitar

4 msk sojasósa

svartur pipar úr kvörn

Skolið svunturnar úr fersku vatni, skerið kjúklinginn og svunturnar í ferkantaða bita, látið suðuna koma upp á vatninu og setjið gulrætur, svuntur og kjúkling út í. Látið sjóða í um 5 mínútur þar til allt er orðið meyrt. Kryddið með sojasósu og pipar.

Verði ykkur að góðu.

Halla Lúthersdóttir.
DEILA