Strandveiðar: ráðherra boðar tilkynningu í dag

Sjávarútvegsráðherra boðar tilkynningu í dag frá sér varðandi strandveiðarnar. Á morgun 20. júlí er síðasti dagur til þess að segja sig frá veiðum.

Samkvæmt reglugerð verða veiðar stöðvaðar þegar aflinn nær tíuþúsund tonnum.  Nú hafa veiðarnar varað i 41 dag ,miðað við 16. júlí sem skilað hafa 7.642 tonnum samkvæmt yfirliti Landssambands smábátaeigenda, þar af 7.070 tonnum af þorski.  Að óbreyttu verður stöðvun veiða upp úr miðjum ágúst segir á vef Landssambandsins.

LS sendi sjávarútvegsráðherra erindi sl. fimmtudag þar sem hann er hvattur til að tilkynna hið fyrsta um viðbótarheimildir í þorski til strandveiða. Þar segir að í ágúst hafi strandveiðibátar 17 daga til að ná þeim 12 dögum sem þeim er heimilt að róa.
„Að óbreyttu verða dagar til strandveiða einungis sjö í ágúst. Þannig að strandveiðar verði út tímabilið er það mat LS að bæta verði við um 1.500 tonnum af þorski.“

Landssamband smábátaeigenda telur að ráðherra geti aukið heimildir til strandveiða um 1.170 tonn í þorski.   Það fæst annars vegar með skiptum á makríl fyrir þorsk á tilboðsmarkaði sem hafi gefið 976 tonn og hins vegar séu 195 tonn  til ráðstöfunar úr 5,3% pottinum sem LS gerir ráð fyrir að komi óskert til strandveiða.  

DEILA