Samgönguráðherra á vinnuskóm

Það sem af er þessari öld hefur gengið hægt að ná aðalvegakerfi Vestfjarða til núverandi kynslóða. Þjóðvegurinn frá Bolungarvík til Reykjavíkur um Ísafjarðardjúp var loksins allur á bundnu slitlagi árið 2015. Uppistaðan í stofnvegakerfi á Sunnanverðum Vestfjörðum hefur að stærstum hluta verið fyrstu kynslóða vegur en loksins á þessu kjörtímabili höfum við séð stórstigar breytingar og áfram skal haldið.

Tuttugu milljarðar í samgönguframkvæmdir
Tuttugu milljörðum króna verður varið í metnaðarfullar samgönguframkvæmdir á Vestfjörðum á fimm ára tímabili, á árunum 2020-2024. Allar framkvæmdir eru á áætlun og fullfjármagnaðar í samræmi við fimm ára samgönguáætlun, sem Alþingi hefur samþykkt.

Á þessu fimm ára tímabili verður fjárfest í vegaframkvæmdum fyrir 18,2 milljarða kr., höfnum og sjóvörnum fyrir tæpan 1,5 milljarð kr. og flugvöllum fyrir 212 milljónir kr.

Vegabætur í Gufudalssveit

Enn eitt stórverkefnið er hafið í Gufudalssveit. Þar er unnið að endurbótum á 6,6 km kafla á Vestfjarðavegi milli Bjarkalundar og Skálaness við norðanverðan Breiðafjörð. Verkið skiptist í tvo kafla. Annar er um 5,4 km kafli frá Gufudalsá að Melanesi, sem er ekki hluti af Vestfjarðavegi til framtíðar en mun þjóna umferð um Gufudal þar til þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar er lokið. Hins er um 1,2 km kafli frá Melanesi að Skálanesi, en hann verður hluti af framtíðar Vestfjarðavegi. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar á tímabilinu nemur 7,2 milljörðum kr.

Framkvæmdir á Dynjandisheiði á áætlun

Framkvæmdir við mikilvægar endurbætur á Vestfjarðavegi yfir Dynjandisheiði eru þegar hafnar. Um er að ræða endurgerð 35 km kafla og nýbyggingu vegarins á tveimur stöðum, 5,7 km kafla við Þverdalsá og hins vegar um 4,3 km kafla fyrir Meðalnes. Unnið verður að endurbótum jafnt og þétt í nokkrum áföngum til ársins 2024 og mun fyrsta áfanga ljúka í haust, það er veginn upp Pennudalinn að sunnanverðum og svo nýjan veg fyrir Meðalnesið að norðan verðu. Heildarkostnaður við framkvæmdir á tímabilinu nemur 5,6 milljörðum kr.

Heilsárssamgöngur um Vestfirði

Langþráð stund rann upp  þegar Dýrafjarðargöngin voru opnuð fyrir umferð. Hér er um að ræða gríðarlega samgöngubót á Vestfjörðum. Heilsárssamgöngur milli norður- og suðursvæðis verða að veruleika. Vestfirðingar hafa verið langeygir eftir heilsárssamgöngum á milli svæða. Með tilkomu ganganna styttist Vestfjarðarvegur  um 27,4 km og þau leysa Hrafnseyrarheiði af hólmi, sem  erfitt hefur verið að halda opinni yfir veturinn. Göngin bæta umferðaröryggi, spara tíma á ferðalögum og nýtast vel um ókomin ár.

Einbreiðum brúm fækkað um tvær

Eitt af markmiðum samgönguáætlunar er að fækka einbreiðum brúm á þjóðvegum landsins. Í lok sumars mun þeim fækka um tvær á Vestfjörðum. Önnur hverfur þegar framkvæmdum lýkur í sumar við vegkafla á Vestfjarðavegi í Bjarnadal og byggingu nýrrar tvíbreiðrar brúar yfir Bjarnadalsá. Nýi vegkaflinn er um 1,8 km langur og nýja brúin 23 m löng í einu hafi á steyptum undirstöðum.

Hin einbreiða brúin, sem rutt verður úr vegi, er á Bíldudalsvegi (63). Í sumar er stefnt að því ljúka framkvæmdum á endurbótum vegkafla um Botnsá í Tálknafirði og nýja brú yfir Botnsá.

Þá lýkur einnig vegaframkvæmdum á Djúpvegi um Hattardal (nýbygging á 2,6 km vegkafla og ný brú) og á Örlygshafnarvegi um Hvallátur (nýbygging á 2 km vegkafla) í sumar.

Allir velkomnir

Það er hryggilegt að lesa úrtölu frambjóðenda Viðreisnar í kjördæminu við að beina fólki vestur vegna samgangaleysis og þar með að draga upp dekkri mynd af svæðinu en hún er.  Vissulega eru nokkrar tafir á umferð vegna framkvæmda en það er svo örugglega hægt að taka því með bros á vör og vissu um betri tíma á meðan þessir milljarðar vinna á vestfirskum vegum.  En svo megum við svo sannarlega taka höndum saman um áframhaldið. Því næg verkefni eru eftir.  Samgöngur á milli byggðakjarna á sunnanverðum Vestfjörðum eru yfir fjallvegi sem eru erfiðir á veturna og núverandi vegir enganveginn byggðir fyrir þá umferð sem þar er og hefur Bíldudalsvegur  verið álitin ónýtur. Þungaflutningar eru miklir  og almenn umferð aukist vegna atvinnu og þjónustu. Lokanir á vegum eru algengar yfir veturna bæði á milli byggðarlaganna þriggja og á Kleifarheiði á Barðastrandavegi. Þessar lokanir hafa mikil áhrif enda er um eitt vinnusóknarsvæði að ræða.

Bíldudalsvegur um Arnarfjörð

Nýr Bíldudalsvegursem kemur í stað 29 km. langs vegarkafla sem liggur frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi í Helluskarði er einnig mikilvæg framkvæmd fyrir þá uppbyggingu sem er yfirstandandi á sunnanverðum Vestfjörðum og því brýnt að halda því verki inni í samgönguáætlun, er þessi hluti nú á öðru tímabili áætlunarinnar.

Halla Signý Kristjánsdóttir er þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir sama flokk í Norðvesturkjördæmi.

Iða Marsibil Jónsdóttir er í framboði fyrir Framsókn í Norðvesturkjördæmi.

DEILA