Meistaramóti Golfklúbbs Ísafjarðar lýkur í dag

Þessa daganna er hápunktur golfvertíðar í landinu þar sem meistaramót eru haldin, þar sem keppt er um klúbbmeistara í hverjum klúbbi. Á Tungudalsvelli í Skutulsfirði er engin undantekning og hefur mót Golfklúbbs Ísafjarðar staðið frá miðvikudegi og lýkur í dag, laugardag og eru 31 keppandi skráður til leiks. Það er keppt í sex flokkum; 1. flokkur forgjöf undir 12,0, 2. flokku forgjöf 12,1 og yfir, eldri flokkur karlar 50  ára og eldri þar sem leikið af gulum teigum. öldungaflokkur karlar 65 ára og eldri og leikið af rauðum teigum, kvennaflokkur og unglingaflokkur.

Öldungaflokkur og unglingaflokkur spila níu holur á dag.  Aðrir flokkar spila 18 holur. Þetta er því hörku vinna fyrir kylfinga þar sem leikið er 4×18 holur á fjórum dögum. Verðlaun verða afhent í mótslok á laugardegi, og í tilefni dagsins verður slegið upp grillveislu fyrir keppendur.

Það er óhætt að segja að veðrið hafi leikið við keppendur, nokkur vindur á miðvikudaginn, en einmuna hlýindi og sólskin. Það eru því útiteknir kylfingar sem rölta þennan fallega skógarvöll í Tungudal. Í gær föstudag, var bongó blíða með 18° C og sólskini.

Í fréttapistli frá Gunnri Þórðarsyni formanni Golfklúbbs Ísafjarðar segir:

„Það gefur augaleið að lágmarksfjöldi í holli eru tveir, þar sem leikmenn skrá sitt skor og jafnframt leikfélaga. Oftar en ekki veljast góðir vinir saman í hvert holl og samgleðjast þegar vel gengur en veita stuðning þegar á bjátar. Mótið er holukeppni; sem þýðir að öll högg eru talin, burtséð frá forgjöf viðkomandi. Í stigakeppni er hægt að sleppa verstu holunum, strika þær út og halda ótrauður áfram, en í holukeppninni eru öll höggin talin og endar stundum í stórslysi. Dæmi eru um að keppandi hafi farið 9 holuna á 18 höggum sem er par 4, og þá eru litlar líkur á sigri í mótinu.

Það er ekki bara veðrið og fegurð Tungudals sem leikur við keppendur og áhorfendur meistraramótsins, heldur skartar félagsheimili G.Í. sínu fegursta, enda skálinn nýmálaður. Verið er að setja upp ný auglýsingaskilti á skálann en styrkur frá fyrirtækjum er mikilvægur fyrir starfsemi Golfklúbbs Ísafjarðar.“

DEILA