Prófkjör Sjálfstæðisflokksins : 3 af 4 efstu frá Akranesi og nágrenni

Þórdís K. Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra vann öruggan sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hún hlaut 1.347 atkvæði í efsta sætið af 2.232 greiddum atkvæðum. Haraldur Benediktsson, fráfarandi oddviti listans fékk 786 atkvæði í 1 sætið og varð annar með 1.061 atkvæði í tvö efstu sætin. Teitur Björn Einarsson endaði í 3. sæti með 1.190 atkvæði samtals í þrjú efstu sætin. Teitur var með 849 atkvæði í tvö efstu sætin og var því 212 atkvæðum frá Haraldi í keppninni um 2. sætið.

Þessi þrjú höfðu mikla yfirburði í atkvæðum í þrjú efstu sætin yfir aðra frambjóðendur. Í fjórða sæti varð Sigríður Elín Sigurðardóttir Eysta Miðfelli við Akranes með 879 atkvæði samtals í fjögur efstu sætin.

Ekki eru gefnar frekari upplýsingar um atkvæðadreifingu.

Þátttakan nú var um 50% meiri en í prófkjörinu 2016. Þá kusu um 1500 en nú voru 2232 gild atkvæði. Þrír af fjórum efstu í prófkjörinu eru frá Akranesi og nágrenni. Þórdís er frá Akranesi en búsett í Kópavogi.

DEILA