Ný heildarlög um skip

Frá Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alþingi samþykkti nýlega stjórnarfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um ný heildarlög um skip en lögin taka gildi 1. júlí nk. Með lögunum er kominn heildstæður lagabálkur sem inniheldur allar helstu reglur er eiga við um skip.

Markmið laganna er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja skilvirka skráningu, merkingu, mælingu og eftirlit með skipum. Þá er þeim ætlað að veita stjórnvöldum nægilegar heimildir til að innleiða þær kröfur sem leiða af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði sjóréttar er lúta að skipum.

Í frétt ráðuneytisins um málið segir að megintilgangurinn með nýju lögunum sé að einfalda lagaumhverfi skipa og koma ákvæðum þeirra í ein lög. Þau sameina efni fjögurra eldri laga sem komin voru til ára sinna en þau eru: Lög um einkenning fiskiskipa, nr. 31/1925, lög um skráningu skipa, nr. 115/1985, lög um skipamælingar, nr. 146/2002 og lög um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Þá eru felld brott ýmis sértæk lög sem ekki er nauðsynlegt að séu í lagasafni. Í lögunum eru einnig gerðar ýmsar breytingar sem taka mið af rafræna stjórnsýslu sem Samgöngustofa sinnir. 

Þá segir að einföldunin sé í liður í umfangsmikilli vinnu ráðuneytisins við að einfalda og uppfæra víðtækt regluverk sem byggir á gildandi lögum.

DEILA