Merkir Íslendingar – Birkir Friðbertsson

Birkir Friðbertsson fæddist þann 10. maí 1936 að Botni í Súgandafirði.

Foreldrar hans voru Friðbert Pétursson og Kristjana Guðrún Jónsdóttir.

Birkir gekk í Barnaskólann á Suðureyri og Gagnfræðaskólann á Akranesi og útskrifaðist sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1954.

Birkir kvæntist Guðrúnu Fanný Björnsdóttur þann 13. 11. 1957, en hún er fædd þann 16.7. 1937.

Þau eignuðust sex börn;

1) Björn, f. 6.7. 1956, k.h. Helga Guðný Kristjánsdóttir,

2) Hörður, f. 16.8. 1958, k.h. Málfríður Waage,

3) Fjóla, f. 21.4. 1960, m.h. Ingvar Valur Gylfason,

4) Lilja, f. 31.7. 1962, m.h. Torfi Guðmundsson,

5) Björk, f. 6.4. 1968, m.h. Haraldur Örn Hannesson,

6) Svavar, f. 18.9. 1972, k.h. Svala Sigríður Jónsdóttir.

Birkir bjó alla sína ævi í Súgandafirði, fyrst á búi foreldra sinna í Botni en árið 1958 stofnuðu þau Gunný nýbýlið Birkihlíð. Hann var bóndi í Birkihlíð alla sína starfsævi, en sinnti þar fyrir utan félagsmálum af miklum krafti. Má þar meðal annars nefna setu á búnaðarþingi fyrir Búnaðarsamband Vestfjarða frá 1983-1997 og formaður Mjólkursamlags Ísfirðinga 1977-1992, en þar sat hann í stjórn til 1994.

Birkir var lengi þátttakandi í sveitarstjórnarmálum í Suðureyrarhreppi.

Birkir var framkvæmdastjóri útgáfufélags Búnaðarsambands Vestfjarða og lagði þar fram mikla vinnu. Einnig gaf hann út „Ljóð og litlar vísur“ með eigin ljóðum. Hann var skátaforingi skátafélagsins Glaðherja í Súgandafirði í nokkur ár og félagi frá stofnun þess árið 1953 og starfaði með tveimur Lionsfélögum á norðanverðum Vestfjörðum á mismunandi tímum.

Birkir var í varastjórn raforkubænda frá stofnun 1999-2002 og í aðalstjórn frá 2002-2007 og þar af formaður 2005-2007 og 2012- 2014.

Birkir var einnig í forsvari fyrir hóp innan Fornminjafélags Súgandafjarðar, sem skráði öll þekkt örnefni í Súgandafirði inn á myndir sem varðveittar eru á vef félagsins.

Birkir Friðbertsson lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 5. júní 2017.

Birkir var jarðsunginn frá Suðureyrarkirkju föstudaginn 16. júní 2017.


Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA