Háskólahátíð á Hrafnseyri: Fyrsta brautskráning úr Sjávarbyggðafræði

Útskriftarnemar ásamt rektor HA, starfsmönnum Háskólaseturs og fyrrum nemendum sem sóttu Háskólahátíð í ár.

Að vanda hélt Háskólasetur Vestfjarða Háskólahátíð á Hrafnseyri þann 17. júní í tengslum við þjóðhátíðardagskrá Safns Jóns Sigurðssonar á staðnum. Þau tímamótu urðu í ár að fyrstu nemendurnir í Sjávarbyggðafræði brautskráðust en námsbrautin var sett á fót haustið 2019.

Alls brautskráðust tíu nemendur að þessu sinni, átta úr Haf- og strandsvæðastjórnun og tveir úr Sjávarbyggðafræði. Auk þess brautskráðust í október átta nemendur úr Haf- og strandsvæðastjórnun. Nemendurnir koma víða að, frá Íslandi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi, Kanada og Írlandi. Sex útskriftarnemendur voru viðstaddir athöfnina en margir þeirra eru búsettir erlendis eða annars staðar á landinu og áttu því ekki kost á því að koma vestur. Líkt og undanfarin ár sótti þónokkur fjöldi fyrrum nemenda athöfnina og samfagnaði með útskriftarnemum. Það var því myndarlegur hópur sem stóð á sviðinu að athöfn lokinni og kastaði húfunum.

Sú ánægjulega hefð hefur skapast á þessum degi að rektor Háskólans á Akureyri sækir Háskólahátíð og afhendir nemendum prófskírteini sín. Núverandi rektor HA, Eyjólfur Guðmundsson var í sinni sjöundu ferð vestur á Hrafnseyri í þessum erindagjörðum. Eyjólfur flutti skemmtilegt ræðu í formi bréfs til Jóns Sigurðssonar, einskonar ávarp úr framtíðinni: „En minn kæri Jón, það er með miklu stolti og ánægju sem ég get sagt þér frá því að á fæðingastað þínum hefur skapast sterk hefð og tiltrú á alþjóðlega samvinnu og menntun. Á hverju ári er útskrifaður frá Háskólasetri Vestfjarða alþjóðlegur hópur ungs fólks sem hefur gert það að sínu að rannsaka og skrifa um hvernig bæta megi umgengni okkar um auðlindir Íslands og samfélög. Ungt fólk sem kemur allstaðar að úr heiminum til þess að læra, gefa af sér og skilja eftir fjölbreytta menningu og þekkingu. Ég veit ágæti Jón að þú yrðir einstaklega stoltur af því að sjá þennan myndarlega hóp kandídata og þú yrðir ekki síður stoltur af því hvernig Vestfirðingar, þitt heimafólk, hefur tekið þessum nemendum opnum örmum og þannig skapað heilan her sendiherra þekkingar, upplýsingar og menntunar en umfram allt velvilja menningarheima á milli. Alþjóðahyggja og -samskipti sjálfstæðra þjóða sem grunndvöllur framfara lifir því góðu lífi í þinni heimasveit kæri Jón.“

Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranáms í Sjávarbyggðafræði flutti einnig erindi og fjallaði líka um það hve mikilvægur menningarlegur fjölbreytileikinn er fyrir samfélög. Jafnframt benti hann á hve hentug staðsetning námsins í Sjávarbyggðafræði er. „Það er varla hægt að hugsa sér betri staðsetningu fyrir meistaranám í Sjávarbyggðafræði en einmitt hér á Vestfjörðum. Hversvegna? Vegna þess að viðfangsefni námsins er einmitt það sem Háskólasetrið snýst um. Með öðrum orðum: Háskólasetur Vestfjarða er byggðaaðgerð í sjálfu sér.“ Viðeigandi orð frá fagstjóra nýjasta vaxtarsprota Háskólasetursins sem eins og áður sagði uppskar sína fyrstu brautskráningu þennan dag.

Áður en prófskírteinin voru afhent hélt Peter Weiss, forstöðumaður einnig ræðu og beindi orðum sínum til kandídatanna: „Ein mestu forréttindi starfs okkar í Háskólasetrinu eru að mega fylgjast með ungu og efnilegu fólki feta sig úti í atvinnulífinu. Mér finnst sérlega aðdáunarvert að sjá að þónokkrir láta atvinnuleitina stjórnast af hugsjónum frekar en launum. Ég óska ykkur þess að fá að launum það að sjá afrakstur af starfi ykkar í lífinu. Það er á endanum verðmætara en krónur og aurar. Það eru forréttindi að geta leyft sér að láta stjórnast af hugsjónum. Grípið tækifærið ef það gefst. Öll störf eru mikilvæg og samfélagi lífsnauðsynleg, og öll störfin eru góð, meðan þau eru unnin af alúð. Ekki eru til verk sem eru æðri eða lægri.“

Að lokinni formlegri dagskrá hélt hópurinn svo út og plantaði birkitrjám í lund austan við Hrafnseyrarbæinn þar sem hver og einn útskriftarnemi hefur plantað tré í gegnum árin.

Dagskránni var streymt í beinni útsendingu á Facebook síðum Háskólaseturs og Safni Jóns Sigurðssonar og þar má horfa á hana í heild sinni ásamt ræðu Elísabetar Jökulsdóttur og söngs Bergþórs Pálssonar.

DEILA