Greitt fyrir ljósleiðara út á Ingjaldssand

Ingjaldssandur. Mynd: Mats Wibe Lund.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur staðfest að tillögu skipulags- og mannvirkjanefndarþess efnis að plæging á streng/lagning ljósleiðara frá Tungu í Valþjófsdal að Sæbóli, Ingjaldssandi í Önundarfirði, sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Ef framkvæmdin þyrfti að fara í umhverfismat myndi hún tefjast verulega, líklega um 1- 2 ár.

Það er Snerpa ehf á Ísafirði sem óskaði eftir þessu, en fyrirtækið mun plægja strenginn í jörð í sumar. Strengurinn verður samtals 14.367 metrar að lengd.

Þrífösun rafmagns líka

Snerpa hefur samið við Orkubú Vestfjarða um sameiginlega framkvæmd við ljósleiðaravæðingu og þrífösun rafmagns frá Tungu í Valþjófsdal og út á Ingjaldssand,, sem mun leiða til samlegðar og lágmarksrasks á landi.

Í erindi Snerpu kemur fram að samráð verður haft við fulltrúa landeigenda á öllum lagnaleiðum sem samþykkja fyrir sitt leyti lagnaleiðina. Sömuleiðis verður aflað leyfa hjá Vegagerðinni og umsagnar Minjastofnunar. Gert er ráð fyrir að framkvæmd og frágangur yfirborðs verði með þeim hætti að af framkvæmdinni verði lágmarksrask og að gróður nái
að jafna sig að fullu á 1-3 árum og að landeigendur séu skaðlausir af öllum framkvæmdum tengdu verkinu.

DEILA