Flokkur fólksins og Samfylkingin auglýsa mest á facebook

Innlendir aðilar hafa auglýst fyrir 11 milljónir króna á facebook frá 11. mars til 8. júní. Þetta kemur fram á upplýsingasíðu sem facebook birtir og síðan hafa Píratar unnið upp úr henni samantektir sem birt er á sérstakri upplýsingasíðu þeirra.

Samkvæmt þessum gögnum hefur Flokkur fólksins auglýst mest á þessum vettvangi á þessu tímabili eða fyrir 1.446.807 kr. og birt 52 auglýsingar. Næst þeim kemur Samfylkingin með 845.262 kr. og 76 auglýsingar. Í þriðja sæti er Guðlaugur Þór Þórðarson með 788.156 kr. og 339 auglýsingar og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er fjórða með 513.589 kr. og 88 auglýsingar.

Stjórnmálaflokkar og frambjóðendur í prófkjörum eru áberandi á listanum en af öðrum auglýsendum má nefna ASÍ, Kjarnann, ADHD samtökin, Icelandic Wildlife Fund og Landvernd. Í þessum tilvikum eru fjárhæðirnar frá 63 þúsundum kr upp i 260 þúsund kr. hjá ASÍ.

Sömu flokkar hæstir á Vestfjörðum

Á Vestfjörðum hefur aðeins 188.047 kr. verið varið í auglýsingar á facebook á þessu tímabili. Sömu aðilar eru efstir þar og á landsvísu. Flokkur fólksins er efstur með 32.755 kr. og Samfylkingin með 35.456 kr. Í þriðja sæti er Teitur Björn Einarsson frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins með 18.320 kr.

Aðrir auglýsendur hafa auglýst fyrir lægri fjárhæð en 10.000 kr. Það þarf að fara niður í 11. sæti listans til að finna annan aðila en stjórnmálaflokk eða frambjóðanda. Það er Stundin sem hefur auglýst fyrir heilar 5.564 kr.