Fíllinn í þorpinu

Önnur bylgja #metoo hefur riðið yfir íslenskt samfélag síðustu vikur, sem hefur ýft upp gömul sár hjá mörgum og sett jafnframt liðna tíð í annað samhengi. Öll þekkjum við þolendur og öll þekkjum við gerendur, þó svo að við séum ekkert endilega alltaf meðvituð um það.

Á litlu landi verða svona hlutir óhjákvæmilega flóknir meðferðar og auðvelt er oft að þegja og segja ekki neitt þegar mögulegur gerandi er einhver þér náinn. Þessi vandi getur oft orðið enn stærri í þeim litlu samfélögum sem eru úti á landsbyggðinni.

Þegar ég hugsa til baka til æsku minnar og unglingsára á Ísafirði, þá voru margir þolendur sem hlutu lítinn sem engann stuðning frá samfélaginu vegna þess að gerandi þeirra var „góður strákur“, var vel liðinn og vel tengdur innan okkar litla samfélags.

Vitað var af mörgum sem höfðu brotið af sér, voru með orð á sér að vera „tæpir“ og okkur sagt að passa sig á ákveðnum aðilum á djamminu. Þetta var samt allt undir rós því engan mátti nú styggja.

Ég þekki persónulega marga þolendur sem urðu fyrir ofbeldi en treystu sér aldrei til þess að segja frá vegna þess að þau vildu ekki fá á sig þann stimpil að vera að eyðileggja orðspor „góða stráksins“ eða „góðu stelpunnar“.

Við þekkjum líka sögurnar þar sem þolendum er beinlínis bolað í burtu úr bæjarplássinu vegna ofbeldis sem þau urðu fyrir. Sumar þeirra eru opinberar og hefur verið fjallað um í fjölmiðlum en þær eru svo miklu fleiri sem eru það ekki. Það gerir þær hins vegar ekkert minna raunverulegar.

Kynferðisofbeldi er alltaf alvarlegt hvar sem það gerist og því miður gerist það alls staðar. Þegar þú býrð í litlu samfélagi þar sem fáir búa og allir þekkjast er mun erfiðara að forðast bæði geranda þinn, vini hans og vandamenn og þann orðróminn um það sem gerðist. Þolendur standa þá oft frammi fyrir tveimur afarkostum; flytja burt til þess að flýja aðstæður eða vera um kyrrt, með þeirri vanlíðan sem því fylgir.

Við eigum að taka samtalið í litlu samfélögunum okkar úti á landi. Við verðum að auka fræðslu og forvarnir, og hafa hana til jafns milli þeirra sem eldri eru og fyrir börnin okkar og unglinga. Eins mikið og mér þykir vænt um minn heimabæ og elskaði að alast þar upp, þá var þetta samfélagslegt mein sem því miður er enn við lýði. Við verðum að taka höndum saman og uppræta það, í eitt skipti fyrir öll.

Sköpum pláss fyrir samtalið, sköpum pláss fyrir gerendur til þess að taka ábyrgð og tökum skýra afstöðu með þolendum ofbeldis. Þessi fallega samstaða sem fyrirfinnst í okkar litlu samfélögum á landsbyggðinni þarf núna að yfirfærast líka yfir á þolendur ofbeldis. Við eigum að gera betur og við getum gert betur.

Ingunn Rós Kristjánsdóttir

Höfundur er Vestfirðingur og skipar 4. sæti á lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.

DEILA