Vegurinn að baki – vegurinn framundan – stórátaks er þörf í tengivegamálum

,,Hver vegur að heiman er vegurinn heim“ segir máltækið en þó kemur hann lítt að gagni til og frá nema hann sé þokkalega fær. Um vegamál var allmikið rætt í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og ekki að tilefnislausu enda er í kjördæminu eitt hæsta hlutfall landsins af tengivegum á möl. Undirritaður vildi frá byrjun kjörtímabils beita þekkingu sinni, reynslu og tengslum til þess að þoka málum áfram fyrir sitt eigið hérað og síðar svæðið í heild sinni.

Á fyrsta sveitarstjórnarfundi að loknu sumarleyfi kosningaárið 2018, var samþykkt samhljóða tillaga undirritaðs, þess efnis að stofna starfshóp um samgöngumál, sem yrði sveitarstjórn innan handar varðandi tillögugerð og forgangsröðun í vegamálum. Í þessum hópi tóku sæti oddvitar beggja lista auk sveitarstjóra. Starfshópurinn tók til starfa strax í september 2018 og átti símafundi með hluta af þingmannahópi kjördæmisins og samgönguráðherra auk staðfunda með forsvarsmanni Vegagerðar ríkisins á Hvammstanga og svæðisstjóra sömu stofnunar á Norðurlandi.

            Nokkrum vikum síðar eða á haustþingi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í október 2018 var samþykkt stofnun samgöngu- og innviðanefndar SSNV. Undirritaður hlaut stuðning og traust sveitarstjórnar Húnaþings vestra til að setjast í umrædda nefnd fyrir hönd Húnaþings vestra.  

             Samgöngu- og innviðanefnd tók til starfa strax í desember 2018 og var starfið yfirgripsmikið. Fyrir voru tekin vega-, hafnar-, flugvallar-, fjarskipta- og raforkumál. Gengið var rösklega til verks og skilaði nefndin af sér skýrslu og um leið tillögu að samgöngu- og innviðaáætlun SSNV á ársþinginu vorið 2019. Skýrslan og tillagan voru samþykkt samhljóða á þinginu og þar náðist þakkarverð eining og afgerandi niðurstaða. Niðurstaða varðandi vegamál var sú að tvær vegaframkvæmdir voru settar á oddinn varðandi sameiginleg áherslumál sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra. Annars vegar uppbygging syðri hluta Skagastrandarvegar, sem nefnist Þverárfjallsvegur um Refasveit, ásamt nýrri brú yfir Laxá í Refasveit. Meginþungi þessa verkefnis var á áætlun seinni hluta fyrsta tímabils samgönguáætlunar, þ.e. 2023 og 2024 en í fyrra var tekin ákvörðun um að flýta verkinu og fer það væntanlega í útboð á næstu dögum. Hins vegar var um að ræða uppbyggingu Vatnsnesvegar, sem lengi hefur verið baráttumál sveitarstjórnar Húnaþings vestra og íbúa í kringum Vatnsnes. Að öðru leyti setti hvert sveitarfélag fyrir sig fram sínar áherslur varðandi forgangsröð vegaframkvæmda. Þegar samgönguráðherra lagði fram endurskoðaða samgönguáætlun á alþingi haustið 2019 var Vatnsnesvegurinn kominn á áætlun, reyndar undir þeim formerkjum að mikill minnihluti fjármagnsins átti að koma á öðru tímabili áætlunarinnar en aukinn meirihluti fjármagnsins á þriðja tímabili. Samþykkti samgöngunefnd alþingis og síðar meirihluti þingsins þessa tillögu ráðherra að endurskoðaðri áætlun. Engum blöðum er um það að fletta að stóru skrefin í þessari baráttu, þ.e. að ýta Skagastrandarvegi/Þverárfjallsvegi framar og koma Vatnsnesvegi inn á áætlun má öðrum þræði þakka slagkraftinum sem kom í kjölfar þess að Skagastrandarvegur/Þverárfjallsvegur og Vatnsnesvegur voru samþykktir sem sérstök forgangsverkefni í samgöngu- og innviðaáætlun SSNV.

Síðan Vatnsnesvegur komst inn á samgönguáætlun hefur undirritaður talað fyrir tvennu innan sveitarstjórnar Húnaþings vestra, á þingum SSNV, á þingmannafundum og fundum með embættismönnum Vegagerðar ríkisins. Annars vegar að fá Vatnsnesveginn færðan framar í samgönguáætlun og hins vegar að fá fjármagn úr tengivegapotti í millitíðinni til að byggja upp stutta kafla á hverju ári og nýta þannig tímann til að vinna í haginn þegar kemur að aðalframkvæmdinni. Þessi þrýstingur og samstaða sveitarstjórnar hefur skilað því að á þessu ári verður farið í byggingu nýrrar brúar yfir Vesturhópshólaá í Vesturhópi og um leið uppbyggingu á veginum frá Þorfinnsstöðum og út fyrir nefnda á eða tæplega þriggja km kafli. Á næsta ári verður síðan farið í uppbyggingu fimm km kafla á Vatnsnesvegi að vestanverðu frá Kárastöðum og út fyrir Ánastaði.

,,Stórfé! Hér dugar ei minna“

Einar Benediktsson skáld sagði í ljóði sínu Aldamót, sem hann gaf út fyrir aldamótin 1900, að þörf væri á stórfé til að byggja upp landið um og eftir þau aldamót. Þessi barátta fyrir bættum samgöngum á Norðurlandi vestra um svokallaða tengivegi hefur leitt í ljós að hér dugar ei minna en stórfé og stórátak. Slíkt átak myndi væntanlega standa næsta áratuginn og án efa hafa jákvæð og góð áhrif bæði á daglega vegferð og velferð fólks vítt og breitt um héröð.

            Undirritaður vill setja fram tillögu þess efnis að þeim tengivegapotti, sem Vegagerð ríkisins hefur nú úr að moða og settar eru í tæplega kr. 1.000 milljónir árlega, verði skipt í tvennt, þ.e. tengivegapott I og tengivegapott II. Tengivegapottur I myndi standa undir uppbyggingu tengivega, sem auk innansveitarumferðar og skólaaksturs innihéldi allnokkra ferðamannaumferð og þaðan af meira. Þennan pott þyrfti að tvöfalda með fjárframlögum samtals kr. 2.000 milljónir árlega. Vegir sem fjármagnaðir væru úr þessum potti þyrfti að byggja vel upp í tvöfaldri breidd og leggja bundnu slitlagi. Tengivegapottur II stæði síðan undir uppbyggingu á tengivegum, sem auk innansveitarumferðar og skólaaksturs innihéldi nokkra ferðamannaumferð eða þaðan af minna. Þennan pott þyrfti að fjármagna með kr. 1.000 milljónum árlega. Vegir, sem fjármagnaðir væru úr þessum potti, þyrftu að lagfærast eftir atvikum og yrðu síðan lagðir bundnu slitlagi í einni og hálfri breidd. Sumir þessara vega þarfnast í raun ekki mikilla lagfæringa til að hægt sé að leggja á þá.

            Í ofangreindri tillögu er öðrum þræði verið að koma með nýja nálgun á það stórverkefni, sem uppbygging tengivega vissulega er, og flestir ef ekki allir eru sammála um að gangi fremur hægt fram. Í þessu efni er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að hér væri um tímabundið stórátak að ræða og einnig hitt að draga mundi hratt úr fjárþörf til viðhalds sömu vega s.s. ofaníburði, bleytingu, söltun og heflun. Það hefur sannarlega sitt að segja þegar allt kemur alls og verkefnið er gert upp að lokum.

Magnús Magnússon,

sveitarstjórnarfulltrúi og byggðarráðsmaður Húnaþings vestra,

nefndarmaður í samgöngu- og innviðanefnd SSNV og

frambjóðandi í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

DEILA