Pétur Geir Helgason-minning

Þeir voru nú ekki bein­lín­is að flíka mjúku hliðinni karl­menn­irn­ir í faðmi fjalla blárra á síðustu öld. Þegar við bætt­ist hrjúf­ur og mik­ill radd­styrk­ur vandaðist málið enn frek­ar. En eft­ir örfá orð komu mjúku tón­arn­ir í ljós. Í orðsins fyllstu merk­ingu. Þannig var Pét­ur Geir í minn­ingu neðri­bæj­ar­púk­ans. Hrjúf­ur en ljúf­ur sæ­úlf­ur. Einn af þess­um mönn­um sem maður kunni fljót­lega skil á eft­ir að reglu­bundn­ar bryggju­ferðir æsk­unn­ar hóf­ust. Þá trú­lega var hann orðinn út­gerðarmaður á Pól­stjörn­unni. Hann fór aldrei langt frá haf­inu og því sem það gaf af sér.

Haustið 1980 var hóað sam­an sex mönn­um á Engja­veg­inn til Kitta og Hans­ínu. Vart var hægt að hugsa sér ólík­ari hóp manna. Þeir höfðu samt all­ir áhuga á fót­bolta og tóku það að sér að reyna að láta villta drauma ræt­ast um sæti til handa ÍBÍ meðal þeirra bestu á land­inu. Efniviður­inn í íþrótta­mönn­un­um hafði verið til staðar en ein­hvern veg­inn hafði þetta aldrei smollið sam­an tutt­ugu árin þar á und­an.

Þetta kvöld hófst vinátta okk­ar sem aldrei bar skugga á síðan. Ásamt fé­lög­um okk­ar geng­um við til verka og náðum með sam­stilltu átaki íbúa að láta draum­inn ræt­ast. Hvað sem titl­ar okk­ar stjórn­ar­manna gáfu til kynna var hann pott­ur­inn og pann­an í þessu starfi. Hug­mynda­auðgi hans í fjár­öfl­un­um var óþrjót­andi og á stund­um virkuðum við hinir ef­laust eins og bölvaðar brems­ur á hann á köfl­um. Við unn­um ein­stak­lega vel sam­an þessi ár. Þó hann tæki starf sitt mjög al­var­lega setti glaðværð hans og glettni einatt skemmti­leg­an svip á fjöl­mörg ferðalög þess­ara ára. Þá spratt líka stund­um fram tón­list­armaður­inn í hon­um. Eft­ir­minni­leg er minn­ing­in um kvöld­verðar­hófið í þýska bæn­um að aflokn­um sig­ur­leik okk­ar manna. Þar rak hann aug­un í nikku eina mikla. Hún var á auga­bragði kom­in í fang hans og ljúf­ir tón­ar bár­ust um sal­inn þýsk­um gest­gjöf­um okk­ar til mik­ill­ar undr­un­ar og gleði.

Haustið 1981 komust dreng­irn­ir okk­ar í hóp þeirra bestu eins og stefnt var að. Það voru dýrðar­tím­ar.

Grett­i­stakið sem Pét­ur Geir lyfti á þess­um árum gleymd­ist knatt­spyrnu­for­yst­unni ekki og árið 2007 var hann, fylli­lega verðskuldað, sæmd­ur gull­merki KSÍ. Mikið vor­um við montn­ir það kvöld.

Svo tóku önn­ur verk­efni við. Pét­ur Geir gerðist rækju­verk­andi í Eyjaf­irði enda þekktu fáir menn kampalamp­ann bet­ur en hann. Aft­ur lágu leiðir okk­ar sam­an í for­ystu rækju­verk­enda. Þar var hann líkt og fyrr­um góður og traust­ur liðsmaður.

Þegar Púkamótin hófust á Ísafirði snemma á þessari öld og sömu drengir, þá orðnir gamlar knattspyrnukempur,  reyndu að sína samborgurum sínum að þeir hefðu engu gleymt var hann mættur á sinn stað. Örlítið stilltari en sami brennandi áhuginn. 

Rétt­um fjöru­tíu árum eft­ir að fyrstu leik­irn­ir voru leikn­ir, sem mörkuðu upp­haf æv­in­týr­is­ins, hef­ur Pét­ur Geir kvatt þetta jarðlíf. Í fjöl­mörg­um sam­töl­um okk­ar síðla kvölds forðum daga kom í ljós að hann var mjög trúaður maður, sem er raun­ar mjög al­gengt meðal sjó­manna. Um leið og ég votta öllu hans góða fólki samúð mína enda ég á orðum hagyrðings­ins Pét­urs Geirs.

Minn frels­ari ég fel þér öll mín ráð

og fagna þér að dög­um mín­um töld­um.

(PGH)

Hall­dór Jóns­son.

DEILA