Að minnsta kosti 20 kríur voru á Suðurtanga á Ísafirði í gær þann 13 maí og í morgun voru um 60 kríur á Sandinum við Bolungarvík að því er kemur fram á facebooksíðu Náttúrustofu Vestfjarða .
Krían er eini fulltrúi þernuættar hér á landi. Hún er spengilegur og tígulegur fugl með mikið flugþol. Á sumrin er kría með svarta hettu frá goggrótum og aftur á hnakka.
Á síðasta ári byrjaði Náttúrustofa Vestfjarða átaksverkefni í skráningu kríuvarpa og talningu á kríum á Vestfjörðum með það að markmiði að meta heildarfjölda þeirra á svæðinu. Framhald verður á verkefninu í sumar.
Samkvæmt upplýsingum á vef Náttúrufræðistofnunar sáust fyrstu kríurnar í fyrra í Dýrafirði 8. maí, á Bíldudal 10. maí, á Patreksfirði 11. maí, á Ísafirði 13. maí og í Bolungarvík 16. maí.