Þjóðgarður á Vestfjörðum

Uppi eru áform um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Svæðið er stórt og nær m.a. til Dynjanda, Geirþjófsfjarðar, Vatnsfjarðar og Hrafnseyrar eða um 351 ferkílómetra svæði sem er um það bil 4% af Vestfjörðum. Þar eru fyrir friðlönd svo sem í Vatnsfirði auk Dynjanda sem var friðlýstur árið 1981, auk þess var Surtarbrandsgil friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Geirþjófsfjörður sem er sögusvið Gísla sögu Súrssonar er á náttúruminjaskrá  og þá er Hrafnseyri sögufrægur staður og verðmætur í okkar þjóðarsögu.

Með stofnun þjóðgarðs á svæðinu er verið að tengja saman þessi svæði og friðlýsa undir sama verndarflokk. Mikil sátt er með þau svæði sem upp eru talin hér að framan sem friðunarsvæði. Það er ljóst að mörg tækifæri liggja í stofnun þjóðgarðs á svæðinu en þjóðgarður er stór ákvörðun sem þarf að undirbúa vel og í sátt við samfélögin.

Hver eru áformin?

Innan þjóðgarða geta reglur verðið mismunandi og friðlýsingarskilmálar einnig. Nú er áformað að stofnun þjóðgarðsins verði 17. júní á þessu ári, eftir tæpa þrjá mánuði. Inn á vef Umhverfisstofnunar má finna þónokkrar upplýsingar og þar á meðal að friðlýsingaskilmálar skulu sérsniðnir fyrir hvern þjóðgarð fyrir sig og þá sérstaklega til að viðhalda verndargildi svæðisins í sátt við samfélögin í kring og þeirra þarfir. En það verður að segjast að þótt undirbúningur hafi staðið frá síðasta ári hefði meira þurft að fara fyrir samráðsferli og umræðu um áætlunina. Almennur frestur til að skila inn athugasemdum við áformin er liðinn en sveitarfélög og hagaðilar geta enn komið með athugasemdir. Það er margt enn óljóst og almenningur á svæðinu er ekki með fullmótaða mynd á fyrirhuguð áform. Samráðsferli í svona vinnu ætti að vera svipað og við gerð aðalskipulags, virkt samráð þar sem haldnir eru fundir nokkrum sinnum í ferlinu og tekið sé tillit til athugasemda sem þar berast.

Er fjármögnun tryggð?

Í mínum huga þarf það að liggja fyrir áður en þjóðgarður verður stofnaður að samgöngumannvirki sem ætlað er að verði reist á svæðinu fái enn að rísa, að ekki sé bannað að nýta orku þar sem það á við og að atvinnustarfsemi hvorki á landi né sjó sé skert sérstaklega. Mikilvægt er að sveitarfélögin hafi góða aðkomu að ákvörðun um reglur á svæðinu. Við þekkjum of mörg dæmi þess þar sem stofnanir í Reykjavík (miðlægar stofnanir) hafa sett alltof stífar kvaðir á fólk og athafnir þess án þess að mikil ástæða sé til. Þá er ósvarað hvernig staðið verður að fjármögnun á uppbyggingu þjóðgarðsins. Nú má ætla að þjóðgarður sé aðdráttarafl ferðamanna og íbúa svæðisins, því þarf að undirbúa umferð ferðamanna. Það kostar bæði að vernda umhverfið og bæta aðgengi. Fjárframlög verða að vera tryggð fyrir fram þannig að um innantóm loforð sé ekki að ræða.

Stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum á að opna á tækifæri fyrir nærsamfélögin til að vaxa og dafna og byggja undir innviðauppbyggingu, atvinnulíf og menningu fjórðungsins í heild. Með því náum við hámarks ábata og sátt um verkefnið. En til þess að það geti orðið verður að vanda sig við undirbúning og áform. Ganga til þess með opin augu og rýna til gangs. Því það skal vanda sem lengi á að standa.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

DEILA