Þjóðgarður á Vestfjörðum: fjárveitingar liggja ekki fyrir

Í svörum Umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta um áformaðar fjárveitingar til væntanlegs Þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum kemur fram að ekki liggi fyrir hverjar þær verða. En þær munu byggja á áður skilgreindri þörf á innviðum á svæðinu.

Framkvæma þurfi greiningarvinnu á innviðþörf vegna þjóðgarðsins og hefur verið ráðstafað 5 milljónum króna til þeirrar vinnu.

„Við greiningarvinnuna verður  meðal annars horft til tillagna samstarfshóps um friðlýsinguna sem nú er að störfum og einnig verður horft til áfangastaðaáætlunar Vestfjarða. Samstarfshópurinn á að skila skýrslu sinni til ráðherra í kjölfar þess að kynningu, og þar með umsagnartíma, á friðlýsingarskilmálum þjóðgarðsins lýkur 26. maí næstkomandi.“ segir í svarinu.

Fram kemur að á sunnanverðum Vestfjörðum starfar einn sérfræðingur í heilsársstarfi, auk þess sem einn landvörður starfar á svæðinu frá maí til september og tveir landverðir frá júní til ágúst. Hefur unnum landvörsluvikum fjölgað á liðnum árum, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna.

„Ljóst er að þessar fjárveitingar aukast með stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum, bæði vegna fjölgunar starfa en einnig vegna innviðauppbyggingar, en endanleg greining á innviðaþörf liggur ekki fyrir eins og áður segir.“

260 m.kr. við Dynjanda

Fram kemur í svari ráðuneytisins að um 115 milljónum króna hefur verið varið úr landsáætlun um innviða til uppbyggingar innviða við Dynjanda og í Vatnsfjarðarfriðlandinu frá árinu 2018. Auk þess var skv. upplýsingum á heimasíðu Framkvæmdasjóðs ferðamanna tæpum 147 milljónum varið til uppbyggingar við Dynjanda 2014-2018.

DEILA