Sjókvíar gerðar klárar á Suðurtanganum

Haustið 2018 fékk Háafell starfs-og rekstrarleyfi fyrir stækkun seiðaeldisstöðvar sinnar á Nauteyri úr 200 tonna lífmassa á ári í 800 tonna lífmassa á ári. Í júní 2020 var svo gefið út að nýju leyfi fyrir eldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi. Þessa dagana er verið að auglýsa hjá MAST og UST tillögu að starfs og rekstrarleyfum fyrir 6.800 tonna eldi á laxi og er reiknað með að setja fyrstu laxaseiðin út í Skötufjörð vorið 2022.

Það sér því loks fyrir endann á um 10 ára löngu og ströngu umsóknarferli til þess að geta alið lax og regnbogasilung í Ísafjarðardjúpi á vegum Háafells.

Á Suðurtanga á Ísafirði hafa starfsmenn Háfells sem er dótturfélag Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, ásamt mönnum frá færeyska fyrirtækinu KJ Hydraulics unnið að því að setja saman kvíar sem fara eiga á nýtt eldissvæði Háafells innan við Æðey í apríl.

Um er að ræða þrjár 160 metra kvíar (ummál) en í þær verður settur regnbogasilungur frá seiðastöðinni á Nauteyri.

Á Mávagarði eru festingar fyrir kvíarnar en Sjótækni mun setja þær festingar út og stilla af þegar veður leyfir. Auknum umsvifum og nýju eldissvæði fylgir aukin mannaflaþörf og hefur Háafell því auglýst eftir fleira starfsfólki.

DEILA