Ísafjarðarbær: Aðeins tveir heiðursborgarar

Ruth Tryggvason var gerð að heiðursborgara Ísafjarðarbæjar árið 2006.

Aðeins tveir einstaklingar hafa verið útnefndir heiðursborgarar í Ísafjarðarbæ frá því sveitarfélagið varð til árið 1996. Það eru Ruth Tryggvason, kaupkona á Ísafirði, 2006 og Vilberg Valdal Vilbergsson tónlistarmaður og rakari á Ísafirði, 2018.

Ekkert er því til fyrirstöðu í nýsamþykktum reglum um heiðursborgara að fleiri en einn séu samtímis heiðursborgarar.

Fram kemur í yfirliti sem birt er á vefsíðu Ísafjarðarbæjar að 9 einstaklingar voru á fyrri tíð gerðir að heiðursborgurum í sveitarfélögunum sem sameinuðust í Ísafjarðarbæ árið 1996.

Flateyrarhreppur var duglegastur á þessu sviði og þar voru 4 gerðir að heiðursborgurum. Þeir eru:

Finnur Finnsson, bóndi á Hvilft, 1946.

Ásgeir Torfason, skipstjóri á Flateyri

Sveinn Gunnlaugsson, skólastjóri á Flateyri, 1959.

Hjörtur Hjálmarsson, skólastjóri á Flateyri, 1975.

Fimmtu Önfirðingurinn í þessu hópi er svo skáldið Guðmundur Ingi Kristjánsson sem var 1987 gerður að heiðursborgara í Mosvallahreppi.

Aðeins einn Súgfirðingur er á listanum. Það er Sturla Jónsson, hreppstjóri Suðureyrarhrepps, sem var heiðraður árið 1976.

Þrír Ísafirðingar eru á listanum frá tíma Ísafjarðarkaupstaðar. Það eru

Jónas Tómasson, tónskáld á Ísafirði, 1960.

Ragnar H. Ragnar, tónlistarskólastjóri á Ísafirði, 1978.

Úlfur Gunnarsson, læknir á Ísafirði, 1984.

Enginn heiðurborgari var útnefndur í Dýrafirði eftir því sem best er vitað.

DEILA