Háhyrningarnir ekki í nauð

Háhyrningarnir í Ísafjarðarhöfn virðast enn sem komið er ekki vera í nauð. Þetta kemur fram á síðu Háskólaseturs Vestfjarða. Sérfræðingar The Icelandic Orcas, rannsóknarhóps sem fylgist með háhyrningum við Ísland, beina þeim tilmælum til fólks að forðast nálægð við dýrin á sjó, þ.m.t. að kafa hjá dýrunum eða sigla að þeim á bát eða kayak. Öll slík nálægð getur aukið á streitu sem dýrin kunna að vera undir og haft neikvæð áhrif á þau.

Sérfræðingarnir telja að aðstæður í Ísafjarðarhöfn sé þess eðlis að nokkrar líkur séu á að dýrin séu í sjálfheldu. Þessar aðstæður svipa mjög til sambærilegra aðstæðna þar sem háhyringar hafa lent í sjálfheldu. Því er mikilvægt að vakta háhyrningana vel og fylgjast með hegðun þeirra.

Dýrin hafa verið vöktuð nákvæmlega frá því snemma í morgun og hegðun þeirra skráð af. Á sama tíma hafa sérfræðingar hjá Icelandic Orcas fundað með sérfræðingum í Noregi sem hafa reynslu af svipuðum aðstæðum. Á þessari stundu er verið að meta stöðuna og ástand dýranna m.t.t. þess hvaða skref verða tekin næst.

Myndin er tekin í aðstöðu sem þær Babsi, nemandi í haf- og strandsvæðastjórnun og Ayca doktorsnemi við Háskóla Íslands hafa fengið hjá Vestra ehf til að fylgjast með dýrunum. Vestra eru færðar kærar þakkir fyrir aðstoðina.

DEILA