Vilja gefa útibekk til minningar

Frá Króki á Ísafirði. Mynd: sarpur.is

Afkomendur hjónanna Kristjáns Gíslasonar og Margrétar
Jóhönnu Magnúsdóttur, sem lengi bjuggu að Sólgötu á Ísafirði hafa farið fram á leyfi bæjaryfirvalda til þess að setja niður útibekk á góðum stað í bæjarfélaginu til heiðurs minningu þeirra.

Í bréfi þeirra kemur fram að þau sjái fyrir sér setja bekkinn niður við sjávarsíðuna t.d. á leiðinni til Hnífsdals þar sem Kristján var með hjall.

Kristján Gíslason var fæddur að Hvammi í Dýrafirði 11.11.1887 – d. 20.05.1963, Margrét Jóhanna Magnúsdóttir fæddist að Hjöllum/Kleifum í Skötufirði 01.06.1899 – d. 01.05.1979.
Bjuggu þau nánast öll sín hjúskaparár að Sólgötu 7 á Ísafirði. Þau hjón eignuðust átta börn sem öll komust til manns.

Í bréfinu segir:

„Við afkomendur þessa góða fólks, sem setti mikinn svip á
bæjarlífið á sínum tíma, höfum rætt um hversu ánægjulegt það væri að fá leyfi til að heiðra minningu þess með því að gefa Ísafjarðarbæ setbekk, til gagns og prýði. Við erum ættrækin stórfjölskylda og afar stolt af arfleið okkar og vestfirskum uppruna. Kristján eða „Kitti ljúfur“, eins og hann var ávalt kallaður, stundaði sjóinn af alkunnum dugnaði. Hann gerði út
eigin bát og Hjall og vann þar heimsins besta harðfisk og líka hákarl, sem hann seldi eða gaf bæjarbúum. Margrét kona hans var húsmóðir að þeirra tíma sið og rak margmennt heimilið að Sólgötu með myndarbrag.“

Bæjarráðið þakkaði innkomið erindi og fól bæjarstjóra að vinna málið áfram.

DEILA