Útgerðin kemst billega frá borði

Grænlendingar hafa gert fjögurra ára fiskveiðisamning við Evrópusambandið sem greiðir u.þ.b. 119 krónur á hvert veitt kg þorskígildis. Það sem íslenska ríkið fær aftur á móti í gegnum veiðigjald og tekjuskatt vegna nýtingar á auðlind sinni er meira en fjórfalt lægri upphæð eða um 27 krónur. Segir þetta ekki allt sem segja þarf um óeðlilega skiptingu auðlindarentunnar í umhverfi íslensks sjávarútvegs?

Ríkidæmi

Við Íslendingar höfum oft orð á því við séum rík af náttúruauðlindum, að á Íslandi sé gott að búa þar sem möguleikarnir séu ríkulegir og lífsgæði mikil. Hér sé auðvelt að skapa sjálfbært samfélag með tekjum af auðlindum þjóðarinnar sem eigi svo að vera drifkraftur velferðar, menntunar og heilbrigðis með beinum og óbeinum hætti. 

Sameiginleg eign?

Flestir eru reyndar í grundvallaratriðum sammála því að náttúruauðlindirnar séu sameiginleg verðmæti í þjóðareigu, í eigu landsmanna allra. Þó eru enn til þær raddir sem nýta mikla orku til þess að snúa þessum atriðum á rönguna, flækja umræðuna, sá efasemdarfræjum og beita röksemdarflækjum.  Þar eru vitaskuld fremstir í flokki þeir sem eiga mestra hagsmuna að gæta og hafa komist yfir nýtingarrétt með ýmsu móti.

Stuðningur við ógegnsætt kerfi

Deilurnar um útfærslu á nýtingu sameiginlegrar sjávarauðlindar eru harðastar; beinast fyrst og fremst að gjaldtöku og nýtingarrétti. Stórútgerðin situr ein að tugmilljarða hagnaði ár hvert og rígheldur með kjafti og klóm í veiðiheimildir eins og hún eigi þær. Á síðasta áratug hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki greitt sér arð sem nemur meira en 100 milljörðum króna. Þarna á þjóðin að eiga sinn sanngjarna og ásættanlega hlut. Núverandi kerfi er ógegnsætt og veiðigjöld svo lág að þau hrökkva ekki einu sinni fyrir nauðsynlegu vísindastarfi sem tengist greininni beint, t.d. stofnmælingum og landhelgisgæslu.  Það sem skilar sér í sameiginlega sjóði okkar er lægri upphæð en tekjur af tóbaksgjöldum og jafnvel lægri en innkoma fyrir seld sportveiðileyfi í landinu.

Bábiljur útgerðarinnar

Það eru til aðrar og skynsamlegri útfærslur þar sem grundvöllur fyrirtækja í sjávarútvegi er tryggður og fyrirsjáanleikinn getur haldist og jafnvel vaxið.  Þetta er að sjálfsögðu framkvæmanlegt en risavaxnir hagsmunaaðilar, þ.e. stórútgerðin skellir skollaeyrum við og nýtir alla sína krafta til að úthrópa þá sem ýja að einföldun og sanngirni. Það er allt kapp lagt á að draga upp kolsvarta mynd, útmála þá sem vilja gæta hagsmuna þjóðarinnar betur sem nánast landráðamenn sem hafi það eitt að markmiði að eyðileggja greinina, rústa sjávarútveginn. Þetta eru bábiljur sem þjóðin getur ekki sætt sig við.

Skýrar línur í næsta nágrenni

Stjórnvöld á Grænlandi innheimta mun hærri veiðigjöld af fiskafla en tíðkast á Íslandi.  Í ársbyrjun 2018 tók gildi nýtt veiðigjaldakerfi til mikils ábata fyrir samfélagið. Í þessu sambandi er undirstrikað að þetta er raunar sú leið sem við í Samfylkingunni tölum ekki fyrir en þó full ástæða til að gefa reynslu granna okkar gaum. Það sem mestu máli skiptir er að  útfærslan er skýr, skilningurinn  er alveg klár. Auðlindin er eign þjóðarinnar og Grænlendingar hafa af henni sanngjarnar tekjur til reksturs samfélagsins.

Myljandi hagnaður í Grænlandi

Þótt tölur og upphæðir séu breytilegar frá einum tíma til annars, þá má nefna að á árinu 2017 námu veiðigjöldin á Grænlandi rétt um 4,5 milljörðum íslenskra króna. Með nýjum samningi við ESB árið 2018 voru þau komin upp í tæpa 9,5 milljarða og eftir sem áður er blússandi afkoma í greininni og það er vissulega gleðiefni og nauðsynlegt.  Afkoman hefur verið slík að úthafsflotinn hefur verið að skila 1,5 milljarði kr. í hagnað á ári fyrir skatta. Hver togari hefur því jafnvel verið að borga sig upp á fimm til sjö ára fresti þrátt fyrir veiðigjöldin.

Sátt um auðlindina

Það er lítil von til þess að núverandi stjórnvöld breyti um stefnu svo lengi sem Sjálfstæðisflokkurinn stjórnar ráðstöfun auðlindanna.  Innan fárra mánaða gefst tækifæri til að velja leið umbóta og sanngjarnari skipta á verðmætum í þjóðareign.  Þeir sem telja að vel fari á því að sjávarútvegsfyrirtæki eignist enn fleiri verslanir, tryggingafélög, fjölmiðla, innflutningsfyrirtæki, fjármálafyrirtæki og fasteignafélög, fái enn meiri fjárhagsleg ítök innanlands og utan kjósa til valda öflin sem verja óbreytt ástand, þau öfl þekkjum við. Það eru hins vegar aðrir kostir í boði sem tryggja munu eðlilegt rekstrarumhverfi í sjávarútvegi og sátt um ráðstöfun auðlindaarðsins.  Það er gott að fara að hugsa til haustsins.

Guðjón Brjánsson, alþm.

DEILA