Samorka að gefast upp á rammaáætlun

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, hélt í síðustu viku aðalfund sinn en samtökin voru stofnuð 1955. Orkubú Vestfjarða er aðili að samtökunum og er Orkubússtjóri í varastjórninni.

Í ályktun aðalfundarins er bent á að græn orka er lausnin, en stjórnvöld hafa sett fram þá stefnu að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050. Græn orka fæst m.a. með vatnsaflsvirkjunum og heitu vatni. Þá þurfi að vera hægt að flytja raforkuna um landið og til þess þurfi sterka innviði.

„Til að fylgja grænni endurreisn úr hlaði þurfa sterkir innviðir að vera til staðar fyrir raforkuflutning og dreifingu. Einnig þarf hreint og heilnæmt drykkjarvatn og góða fráveitu. Ekki síst þarf hagkvæma græna orku í formi rafmagns og heits vatns til að knýja nýjar lausnir og atvinnuuppbyggingu um allt land. Án grænnar orku næst ekki græn endurreisn.“

Rammaáætlun: endurskoðuð eða lögð niður

Varað er við tillögum, sem liggja fyrir Aþingi um „umsvifamiklar takmarkanir á stórum hluta landsins sem draga verulega úr möguleikum til að uppfylla framtíðarþarfir þjóðarinnar fyrir græna orku og uppbyggingu grænna innviða fyrir alla landsmenn“ og leggur Samorka til að fram fari heildarendurskoðun á ferli rammaáætlunar eða hún lögð niður, þannig að fram komi nýtt skilvirkt fyrirkomulag sem tryggi að ákvarðanir um nýtingu eða vernd orkuauðlinda séu teknar með heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Samorka kallar eftir samráði við endurskoðun rammaáætlunarferlisins eða annars fyrirkomulags sem komið yrði á, og er tilbúin til að taka þátt í slíkri vinnu.

Rammaáætlun: alvarlegir ágallar

Samtökin hafa áður bent á að lagaskilyrði um verndar- og orkunýtingaráætlun hafi ekki verið uppfyllt, því faghópar sem áttu að fjalla um efnahags- og samfélagslega þætti luku ekki störfum og vantaði þær forsendur inn í þá niðurstöðu verkefnastjórnar sem nú liggur fyrir. Þar með er alvarlegt ójafnvægi milli mats á orkukostum hvað varðar verndargildi náttúru samanborið við jákvæða efnahags- og samfélagslega þætti vegna nýtingar í þriðja áfanga rammaáætlunar. Ýmsir aðrir faglegir ágallar eru á ferlinu sem þarf að laga. Þá hefur afmörkun landsvæða friðunar í kjölfar síðustu rammaáætlunar valdið réttaróvissu, sem hugsanlega skapar ríkinu skaðabótaskyldu.

Vegna þeirra alvarlegu ágalla sem eru á verklagi verkefnastjórnar og faghópanna, vill Samorka heildarendurskoðun á ferlinu, svo það þjóni í reynd markmiðum laganna og leiði til þess að þjóðin geti treyst því að ákvarðanir um nýtingu eða vernd orkuauðlinda séu teknar með heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Samorka kallar eftir samráði við endurskoðun rammaáætlunarferlisins eða annars fyrirkomulags sem komið yrði á, og er tilbúin til að taka þátt í slíkri vinnu.

Á Vestfjörðum hefur Hvalárvirkjun verið tvisvar samþykkt í nýtingarflokk í Rammááætun og lagt er til að Austurgilsvirkjun verði einnig i nýtingarflokki.

DEILA