Sæferðir: góðar líkur á því að Baldur muni sigla aftur í vikunni

Baldur í togi rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar. Mynd: Landhelgisgæslan.

Í tilkynningu frá Sæferðum ehf í Stykkishólmi í dag segir að unnið hafi verið um helgina í vél Baldurs. Ný túrbína er á leið til landsins og mun verða komin í hendur Sæferðastarfsmanna síðar í kvöld.

Á morgun, mánudag, koma vélasérfræðingar til liðs við Sæferðastarfsmenn og vinna við samsetningu hefst auk þess sem nánari skoðun mun fara fram.

„Góðar líkur eru á því að Baldur muni sigla aftur í vikunni og er miðvikudagur nú talinn líklegur upphafsdagur.
Sem fyrr þarf að hafa ákveðna fyrirvara en útlitið er gott þegar þetta er skrifað“ segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða.

Vegagerðin segir í frétt um málið á vefsíðu sinni í dag að búið sé að taka túrbínuna frá og að „svo virðist sem lega hafi gefið sig en þörf er á að skipta túrbínunni út og  sem fyrr segir er von á varahlutnum til Reykjavíkur í kvöld þar sem verður strax farið með hana í Stykkishólm. Reiknað er með viðgerð á morgun, reynslusiglingum á þriðjudag og sem fyrr segir gangi allt upp verði reglulegar siglingar teknar upp á miðvikudag.“

Mynd: Sæferðiir ehf

 

DEILA