Minjasjóður Önundarfjarðar vill gefa bænum gamalt verslunarhús á Flateyri

Verslun bræðranna Eyjólfsson á Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Minjasjóður Önundarfjarðr hefur sent bæjarráði Ísafjarðarbæjar bréf þar sem viðruð er sú hugmynd að sjóðurinn gefi bænum húseignina að Hafnarstræti 3-5 á Flateyri, þar sem verslun Bræðranna Eyjólfsson hefur verið til húsa í rúm 100 ár.

Í bréfinu, sem Bryndís Sigurðardóttir, formaður stjórnar sjóðsins undirritar, kemur fram að húsnæðið þarfnist mikilla endurbóta sem eru Minjasjóðnum ofviða.

„Verslunin er elsta upprunalega verslun landsins og hafa innanstokksmunir kaupmannshjónana og innréttingar verið óbreyttar frá upphafi. Bæði húsið og innbú hafa ótvírætt mikið menningarsögulegt gildi fyrir Flateyri og fyrir sveitarfélagið. En húsið er eðli málsins samkvæmt gamalt og þarfnast mikilla endurbóta sem Minjasjóðurinn hefur
ekki bolmagn til að fjármagna.
Við í stjórn Minjasjóðsins teljum að þessar eignir þarfnist faglegrar umhirðu og endurbóta sem eðlilegt er að sveitarfélagið taki til sín og viljum því bjóða Ísafjarðarbæ húsið ásamt innbúi öllu sem gjöf, að öðru leyti en því að greiða þarf áhvílandi skuldir sem að mestu eru ógreidd fasteignagjöld til sveitarfélagsins. Fengist hefur styrkur upp á kr. 2.500.000,- frá Húsfriðunarsjóði til endurbóta á húsinu og fylgir með þessari gjöf.“

Bæjarráði óskar eftir umsögn forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða um málið.

DEILA