María Júlía – fundur á morgun kl 11

„Skammt er nú milli merkra atburða í menningarmálum íslensku þjóðarinnar, segir í ritstjórnargrein Morgunblaðsins 22. Apríl 1950. Í fyrradag var glæsilegasta listamiðstöð hennar, Þjóðleikhúsið, opnað og í gær sigldi í höfn í Reykjavík fullkomnasta björgunarskip, sem þjóðin til þessa hefir eignast. Fer raunar vel á því, að þessir atburðir skyldu gerast svo að segja samtímis, því að þótt þeir séu ólíkir fljótt á litið, þá eiga þeir báðir rót sína í sama hugarfari, því að listdýrkun og mannvernd er hvorttveggja einkenni sannrar menningar. Þjóð, sem ekki ann fögrum listum, er ekki menningarþjóð. Og þjóð, sem ekki leggur sig fram um að vernda líf þjóðfélagsborgaranna, getur heldur ekki talist menningarþjóð.“

Hver var hvatinn að því að björgunarskútan María Júlía var smíðuð? Manntjón vegna sjóslysa við Ísland var það mikið öldum saman að um hamfarir var að ræða. Róið var á opnum bátum, sjósókn var erfið og hættuleg og aðbúnaður slæmur. Umræða um öryggismál sjómanna var nánast engin hérlendis um aldir með fáum undantekningum.

Hugsunarháttur í samfélaginu og þróttleysi áhrifamanna áttu sinn þátt í því hve lítið þokaðist í öryggismálum sjómanna fram yfir aldamótin 1900. Árið 1912 flutti Guðmundur Björnsson, sem þá var landlæknir, fyrirlestur sem hristi upp í samfélaginu. Benti hann á hve mikil blóðtaka sjóslys væru fyrir þjóðina en slysunum hafði lítið fækkað þrátt fyrir tilkomu þilskipa og vélbáta eins og margir höfðu reiknað með. Lagði Guðmundur áherslu á mikilvægi þess að rannsaka aðstæður hér við land og byggja yrði útræði og sjósókn á fræðilegum grunni svo að auðveldara yrði að koma í veg fyrir slys. Ekki mætti horfa í kostnað þegar um helstu lífsbjörg þjóðarinnar væri að ræða.

Umræðan sem Guðmundur hratt af stað skilaði ekki miklu í fyrstu. Þó setti Alþingi lög „um eftirlit með skipum og bátum og öryggi þeirra“ og umræðan skaut upp kollinum annað veifið. Fyrsta eiginlega björgunarfélag landsins var stofnað í Vestmannaeyjum árið 1918 og ruddi brautina fyrir stofnun Slysavarnafélags Íslands.

Þjóðin vaknaði hastarlega við sjóslysin miklu hér við land árið 1924 og Halaveðrið í febrúar 1925, þegar tveir togarar fórust með allri áhöfn. Skipulagður undirbúningur slysavarna- og björgunarfélags hófst fyrir alvöru og 1929 var Slysavarnafélag Íslands stofnað.

Vestfirðingar fengu snemma áhuga á að fá björgunarskip í fjórðunginn. Patreksfirðingar hófu að safna fyrir slíku skipi árið 1933 og Ísfirðingar fylgdu á eftir. Árið 1936 sameinuðust vestfirsku slysavarnadeildirnar í söfnunarátakinu og einkum beittu kvennadeildirnar sér í málinu. Lýsir það best áhuga á málefninu, að María Júlía Gísladóttir á Ísafirði og Guðmundur B. Guðmundsson eiginmaður hennar létu eigur sínar renna til smíði björgunarskips fyrir Vestfirði í erfðarskrá sumarið 1937.

„Hefir frú María reist sér óbrotgjarnan minnisvarða með þessari stórbrotnu gjöf, og væri vel, ef fleiri ráðstöfuðu eignum sínum á banabeði til framkvæmda óleystum velferðar og menningarmálum eftirkomendanna. Með þessari ráðstöfun frá Maríu verða eignir hennar um aldur og æfi í þjónustu lífsins, i andspyrnustarfi gegn slysum, dauða og tortímingu“ kom fram í blaðinu Skutli 1937. Vestfirðingar söfnuðu í tæpa tvo áratugi, sjómenn lögðu fram hlut af afla sínum úr sjó og slysvarnarkonur voru óþreytandi við margvísleg söfnunarverkefni. Það er má segja að flestir Vestfirðingar hafi komið að söfnuninni með einum eða öðrum hætti og gert björgunarskútuna María Júlía að veruleika.

Nú veltum við því fyrir okkur hvort María verði táknmynd skeytingaleysis og hverfi okkur sjónum til eilífðar. Meðal annars er að framansögðu ljóst að varðveislugildi hennar er ótvírætt. Skipið er hannað eftir fyrirsögn íslenskra sérfræðinga. Bárður G. Tómasson skipaverkfræðingur gerði teikningu og útboðslýsingu í stríðsbyrjun og tafði ófriðurinn svo verkið að það var ekki boðið út fyrr en 1944. María Júlía átti nítján happadrjúg ár við björgunar, gæslu- og hafrannsóknarstörf, en hafrannsóknir var verulegur í rekstri skipsins enda fyrsta íslenska skipið sem tekið var tillit til þesskonar verkefna við smíðina. Í lok árs 1963 hafði María Júlía bjargað eða veitt aðstoð 251 skipi með áhafnir sem í voru samtals 1.949 menn auk þess að bjarga 12 mönnum af sökkvandi skipum.

Hollvinir Maríu Júlíu stofna samtök um björgun hennar í Turnhúsinu á Ísafirði laugardaginn 6. mars kl. 11:00 og hvetja alla sem áhuga hafa að mæta og taka til hendinni við hreinsun skipsins eftir hádegi ef aðstæður leyfa.

Hlekkur stofnfundarins: https://meet.jit.si/BA36

Hollvinir Maríu Júlíu.

DEILA