Landsbjörg: farsæl björgun í gærkvöldi

Frá björguninni í síðustu viku.. Mynd: Landsbjörg.

Sjóbjörgunarsveitir á Ísafirði og Bolungarvík voru kallaðar út seinnipartinn í gær til aðstoðar við farþegaskip sem var vélarvana norðan við Hælavík á Hornströndum. Lögðu björgunarskipin Kobbi Láka og Gísli Jóns af stað innan við 15 mínútum seinna úr sínum heimahöfnum með samanlagt sjö sjálfboðaliðum innanborðs, að auki voru tveir aðgerðastjórnendur virkjaðir á Ísafirði til aðstoðar.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu nú í morgun segir að laust fyrir Kl 18:00 í gærkvöldi hafi Gísli Jóns komið að bátnum og tók þá við af nærstöddu fiskiskipi sem hafði hafið aðstoð við vélarvana skipið. Þegar að þyrla Landhelgisgæslunnar TF-EIR, sem líka kom á vettvang, hafði lokið við að setja dælu um borð í lekt farþegaskipið og tekið alla farþega þess um borð fóru tveir menn úr björgunarskipunum um borð í skipið til að vera áhöfn þess til aðstoðar. Dró þá Gísli Jóns skipið inn til hafnar á Ísafirði. Þangað var komið um kl 23:30. Ekki urðu nei slys á fólki og enn einu sinni gekk samstarf allra á vettvangi með miklu ágætum. Á höfninni á Ísafirði voru síðan átta sjálfboðaliðar til viðbótar með slöngubát til að aðstoða við frágang og til taks ef með þyrfti.

DEILA