Ísland ljóstengt: framkvæmdir fyrir 23 m.kr. í Ísafjarðarbæ á árinu

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að verja 4,5 milljónum króna í fjögur verkefni á vegum átaksins Ísland ljóstengt. Áætlaður heildarkostnaður er 23 m.kr. í verkinu, aðkoma samstarfsaðila er framlag upp á 6,5 m.kr. og því mun Ísafjarðarbær greiða til þeirra styrk upp á 16,5 m.kr. Áætlaður styrkur til Ísafjarðarbæjar frá ríkinu yrði um 12 m.kr. Nettó kostnaður Ísafjarðarbæjar er því 4,5 m.kr. vegna verkefnisins.

Verkefnin fjögur eru:

Höfði í Skutulsfirði, Arnardalur við utanverðan Skutulsfjörð, Staðardalur í Súgandafirði og Ingjaldssandur.

Á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er fyrirhugað að endurnýja vatnslögn yfir í Staðardal í Súgandafirði þar er gert ráð fyrir 9 m. kr. sem skiptist til helminga í vinnu og efnislið, verður sami skurður nýttur fyrir ljósleiðarann og streng frá Orkubúi, vegna lagnaleiðar yfir í Staðardal.

Reiknað er með því að 3-4 mánuði taki að vinna öll verkefnin. Að Ingjaldssandsverkefninu og út í Staðardal verður unnið í samstarfi við Orkubú Vestfjarða sem áformar þrífösun með jarðstreng til Ingjaldssands. Plægður verður strengur af Sandsheiði að Hrauni og þaðan að Brekku og Sæbóli. Þá verður plægður jarðstrengur frá Sandsheiði yfir Klúkuheiði og niður að Tungu í Valþjófsdal. Út í Staðardal í Súgandafirði verður plægður þriggja fasa jarðstrengur og einnig lögð ný vatnslögn.

DEILA