Ísafjörður: upptökudokk gæti kostað 70 m.kr.

Hafnadeild Vegagerðarinnar hefur kynnt fyrir hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar drög að teikningum af upptökudokk í tengslum við lengingu Sundabakka og áætlun um aukakostnað. Hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar óskaði eftir samantektinni.

Gert er ráð fyrir að dokkin verði 20 m löng og 10 m breið, samtals um 50 m stálþilskantur.


Áætlaður kostnaður er um 70 m.kr. með virðisaukaskatti.

Kostnaðurinn sundurliðast þannig:
Stálþil og festingarefni: 35 m.kr.
Niðurrekstur, fyllingarefni, akkerisplötur og kantbiti: 32 m.kr.
Hönnun, umsjón og eftirlit: 3 m.kr.


Til þess að hægt sé að nýta þann verktaka og búnað sem verður við vinnu á lengingu Sundabakkans í sumar þarf að panta efnið í dokkina eigi síðar en í byrjun maí 2021. Þá er reiknað með að efnið verði komið til landsins í ágúst 2021.
Reiknað er með að bjóða út verkið „Lenging Sundabakka“ í byrjun apríl, því er óskað eftir því að ákvörðun um hvort eigi að bæta upptökudokkinni við liggi fyrir sem fyrst.

Upptökudokkinn er ekki á samgönguáætlun og nýtur því ekki mótframlags úr hafnarbótasjóð segir í minniblaði hafnadeildarinnar. Allur kostnaður, um 70 m.kr. við bygginguna mun því falla á hafnarsjóð Ísafjarðarbæjar.

 

DEILA