Ísafjarðarbær: stofnframlög til 10 íbúða 37 m.kr.

Frá Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð tekur jákvætt í erindi Bæjartúns íbúðafélags um 12% stofnframlag frá bæjarsjóði til bygginga á 10 leiguíbúðum í Ísafjarðarbæ.

Áætlaður heildarkostnaður er 307.667.211 kr. og hlutur sveitafélagsins yrði 36.920.065 kr. Gert ráð fyrir að frá ríkinu komi 18% framlag.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs er vísað í húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar sem gefin var út á árinu 2019. Þar kemur fram að með aukningu á fiskeldi í Dýrafirði, sem og með stofnun lýðháskólans á Flateyri, muni skapast aukin eftirspurn eftir húsnæði á umræddum stöðum. „Veiting stofnframlaga til nýbygginga á Flateyri og Þingeyri, gæti verið góður kostur fyrir sveitafélagið til þess að koma af stað þróun sem þegar hefur átt sér stað á Ísafirði þ.e. nýbyggingar á íbúðarhúsnæði og þannig stuðlað að fjölbreyttari búsetuúrræðum en þegar eru í boði.“

Lagt er til að veita stofnframlög til nýbygginga í smærri kjörnum
s.s. á Flateyri og Þingeyri.

Af hálfu umsækjanda er horft til lóða í Tunguhverfi á Ísafirði og á Flateyri.

DEILA