Hvergi kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar síðasta fimmtudag hver hafi verið ráðinn sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs bæjarins. Bókað er að tillaga bæjarstjóra hafi verið samþykkt 5:0 en ekki kemur fram um hvern tillagan var og í birtri tillögu bæjarstjóra er ekkert nafn að finna.
Þrír aðalmenn voru fjarverandi. Það voru Sjálfstæðismennirnir Daníel Jakobsson og Hafdís Gunnarsdóttir og Í listamaðurinn Sigurður Jón Hreinsson.
Ráðningin var samþykkt mótatkvæðalaust en Í listinn lagði fram bókun þar sem fram kemur að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda Í-listans, hvorki varðandi viðtöl né skrifleg svör við verkefni/spurningum.
„Þar sem fulltrúum Í-listans gafst ekki kostur á að leggja mat á umsækjendur í viðtali eða með því að rýna þeirra hugmyndir um framtíðarsýn skóla- og tómstundasviðs, teljum við okkur ekki geta lagt mat á það hver af umsækjendunum er hæfastur til að gegna stöðu sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs. Við munum því ekki taka þátt í atkvæðagreiðslunni.“