Hvar verður laxasláturhúsið ?

Mynd úr skýrslu KPMG um áhrif laxeldis á Vestfirði.

Stóru fiskeldisfyrirtækin á Vestfjörðum, Arnarlax og Arctic Fish hafa undanfarna mánuði verið að gera athuganir á því hvar hagkvæmast er að byggja nýtt sláturhús fyrir eldislaxinn sem fyrirtækin koma til með að framleiða. Auk þeirra hyggja Hraðfrystihúsið Gunnvör í gegnum fyrirtækið Háafell og Hábrún á umtalsvert eldi en ekki er vitað hvort þau taka þátt í þessum athugunum.

Framleiðslan var um 13 þúsund tonn á Vestfjörðum í fyrra og er fiskinum slátrað á Bíldudal þar sem vinna um 60 manns. Fyrirtækin hafa þegar leyfi fyrir 37 þúsund tonna framleiðslu, sem er þrefalt meira en var í fyrra og viðbúið að frekari framleiðsluleyfi verði gefin út fyrir Ísafjarðardjúp. Alls liggur fyrir að hægt er að heimila 64 þúsund tonna framleiðslu á Vestfjörðum af eldislaxi í sjó.

Hvort sem reist verður eitt laxasláturhús eða fleiri er ljóst að um mikla fjárfestingu verður að ræða. Nefndar hafa verið tölur um 30 – 50 milljónir evra sem jafngildir 5 – 8 milljörðum króna og að fjöldi starfsmanna gæti verið allt að 200 manns.

Margir staðir til athugunar

Haldnir hafa verið formlegir fundir eldisfyrirtækjanna með fulltrúum sveitarstjórna á Vestfjörðum til þess að afla upplýsinga um mögulega aðstöðu. Það á við um allar sveitarstjórnir á norðanverðum Vestfjörðum og staðir sem Bæjarins besta hefur vissu fyrir að hafa verið eða eru til skoðunar eru Skutulsfjörður, Flateyri, Suðureyri og Bolungavík og að nokkru leyti Súðavík.

Grundarfjörður ?

Það er nokkuð óvænt að skoðaðir hafa verið staðir utan Vestfjarða. Nefndir hafa verið Grundarfjörður, Akranes og Helguvík en fulltrúar fyrirtækjanna hafa ekki viljað staðfesta það.

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfjarðarbæ vísaði spurningu Bæjarins besta áfram til laxeldisfyrirtækjanna, varðandi þeirra áform.

„Grundarfjarðarhöfn er mjög góð höfn frá náttúrunnar hendi og mikil uppbygging verið hér á hafnaraðstöðu. Við fáum því oft spurningar frá fyrirtækjum um aðstöðu á hafnarsvæðinu, sem ekki er okkar að segja opinberlega frá.“

Björn Hembre, forstjóri Arnarlax segir í svari sínu við fyrirspurn Bæjarins besta um hvort til athugunar sé að reisa sláturhúsið í Grundarfirði að fyrirtækið meti alla valkosti bæði landfræðilega og einnig varðandi samstarfsaðila. Hann segir það vera ábyrga stjórnun og að það sé viðvarandi verkefni. Því vilji hann ekki svara neinu um spurninguna um landfræðilega staðsetningu fyrir sláturhúsið.

Björn segir að markmið þeirra sé að byggja upp fyrirtæki sem sé sjálfbært bæði í umhverfislegum og efnahagslegum skilningi og geti þannig verið samkeppnisfært við fyrirtæki í þessari atvinnugrein um allan heim. Á þann hátt leggi fyrirtækið sitt af mörkum til þess byggja upp sjálfbær og öflug samfélög þar sem það starfar. Til langs tíma sé það best fyrir alla aðila.

Ekki liggja fyrir formleg svör frá Arctic Fish en fyrirtækið sótti nýlega á markað með sölu hlutafjár töluvert fé til uppbyggingar fyrirtækisins, þar með talið til sláturhúss.

Við staðarvalskönnun eru allir þættir kannaðir. Þar á meðal kostnaður við aðstöðusköpun, aðgengi að starfsfóki, kostnaður við flutning á laxi frá eldisstað að sláturhúsi, og þaðan á markað. Öryggi við samgöngur til og frá sláturhúsi og að koma í veg fyrir að smit, sem kynni að koma upp, geti borist í eldiskvíar og á milli svæða svo nokkur helstu atriði séu nefnd. Hafa verður í huga að bæði fyrirtækin eru komin á opinberan hlutabréfamarkað í Osló og því fylgir aukið aðhald hluthafa að fjárfestingum og rekstri fyrirtækjanna. Verði til dæmis ráðist í stóra fjárfestingu á norðanverðum Vestfjörðum þurfa stjórnendur fyrirtækjanna væntanlega að geta sýnt fram á að það hafi verið besti kosturinn og betri en t.d. að velja henni stað utan Vestfjarða.

Hér er sett fram sú skoðun að staðarvalsathuganirnar muni sýna fram á að hagkvæmast er út frá öllum mælikvörðum að reisa sláturhúsið eða sláturhúsin á Vestfjörðum og að það verði niðurstaðan.

Ísafjarðarbær: verður vinnslan á norðanverðum Vestfjörðum?

Umsögn Ísafjarðarbæjar um frummatsskýrslu Arnarlax um 10.000 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi vekur óneitanlega athygli. Í umsögninni ,sem dagsett er 25. júní 2020 og undirrituð af skipulagsfulltrúa bæjarins, segir að Ísafjarðarbær óski eftir skýrum áformum Arnarlax um það hvort vinnsla á afurðum verði á norðanverðum Vestfjörðum eða ekki.

Leitað hefur verið eftir því við forsvarsmenn Ísafjarðarbæjar hvað valdi því að þetta kemur fram í umsögn bæjarins en ekki hafa enn fengist svör við því.

Skýrist á næstu mánuðum

Fyrirtækin þurfa vegna fyrirsjáanlegrar aukningar í framleiðslu á næstu 2 -3 árum að taka ákvörðun á þessu ári um staðarval og hvort þau vinni saman að nýju sláturhúsi. Varist er allra frétta af tímasetningu en líklegt er að fyrir mitt ár verði tekið af skarið.

Óumdeilanlega eiga Vestfirðingar mikið undir því að uppbygging fiskeldisins á Vestfjörðum verði sem mest innan fjórðungsins og bygging laxasláturhússins er líklega eitt stærsta málið í atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum næstu árin.

Það hjálpar mikið til að svo vill til að Dýrafjarðargöng eru komin og að öruggar heilsársamgöngur milli svæða á Vestfjörðum eru innan seilingar.

-k

DEILA