Héraðsdómur Reykjavíkur vísar frá kröfu um ógildingu rekstrarleyfis fyrir laxeldi

Laxeldi í Tálknafirði. Mynd: ust.is

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá dómi kröfu frá Hótel Látrabjargi ehf, Karli Eggertssyni og Sigríði Huld Garðarsdóttur um ógildingu á rekstrarleyfi til Arctic Sea Farm hf fyrir 6.800 tonna sjókvíaeldi í Tálknafirði og Patreksfirði. Matvælastofnun gaf út leyfið 28.ágúst 2019.

Stefnendur voru þrír, eins og áður greinir og Arctic Sea Farm hf og Matvælastofnun var stefnt.

Dómkröfur voru að rekstrarleyfið yfrði fellt úr gildi og að hinir stefndu greiddu málskostnað stefnenda. Þeir sem stefnt var kröfðust þess að málinu yrði vísað frá dómi og að þeir fengju málskostnað greiddan.

Niðurstaða dómsins var að málið var vísað frá. Leyfið heldur því gildi sínum. Þá var stefnendum, hverjum um sig, gert að greiða Arctic Sea Farm 400.000 kr í málskostnað og Matvælastofnun 200.000 kr.

Forsagan

Forsagan er sú að Arctic Sea Farm fékk rekstrarleyfi fyrir eldinu 22. desember 2017. Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi leyfið úr gildi með úrskurði sínum 4. október 2018 og taldi galla á matsskýrslunni um umhverfismat þar sem ekki hefði verið metnir aðrir valkostir en sjókvíaeldi. Sjávarútvegsráðherra veitti leyfi til bráðabirgða meðan unnið var að því að uppfylla kröfur úrskurðarnefndarinnar og Matvæastofnun gaf svo út nýtt leyfi 28. ágúst 2019. Kærendur kröfðust þess að þetta nýja leyfi yrði fellt úr gildi.

Stefnendur nýttu ekki rétt sinn til þess að gera athugasemdir á undirbúningsstigi svo sem við gerð að nýju umhverfismati og þegar tillaga að rekstrarleyfi var auglýst.

Í dómnum segir að stefnendur hafi ekki gert grein fyrir því með hvaða hætti laxeldið hafi áhrif á starfsemi hótelsins eða nýtingu jarðarinnar Vatnsdals. Óumdeild sé að enginn lax gangi í Vatnsdalsá og sjóvkvíar eru í töluverðri fjarlægð bæði frá Hótel Látrabjargi og Vatnsdal. Ekki er haldið fram að laxeldið valdi stefnendum fjártjóni.

Tilgangur málssóknar að banna laxeldi en ekki verja rétt kærenda

Í úrskurði héraðsdóms segir einnig að ljóst væri að samkvæmt málatilbúnaði stefnenda væri tilgangur þeirra að koma í veg fyrir þá starfsemi sem um ræðir en ekki að verja rétt sinn. Það fullnægi ekki skilyrðum laga um lögvarða hagsmuni og að ekki sé hægt að leggja þá lögspurningu fyrir dómstóla hvort banna eigi eða leyfa laxeldi í sjó þegar það varðar ekki kröfu stefnenda sem var að ógilda rekstrarleyfi. Bendir dómurinn á að laxeldið verði áfram stundað bæði í þessum fjörðum og öðrum þótt umrætt leyfi yrði fellt úr gildi þar sem önnur leyfi haldi gildi sínu.

DEILA