Eiður ÍS-126 og örlög hans

Eiður ÍS skemmdist í snjóflóði í Flateyrarhöfn Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Það var vondur atburður og válegur þegar snjóflóð féll á Flateyri í janúar 2020. Ekki akkúrat það sem þurfti þá og raunar aldrei í byggðarlag sem hefur gengið í gegnum hremmingar. Margir hrukku að vonum illa við og landinn hélt niðri í sér andanum þar til allt var um garð gengið, sem betur fer án þess að mannfall hafi orðið.

En það varð næstum því. Eyðilegging varð og tjón á fasteignum og munum. Og kannski ekki síður varð þar tjón sem erfitt er að bæta, þ.e. að varnargarðurinn hélt ekki og það traust sem hann átti að búa íbúum Flateyrar. En án efa vöknuðu Vestfirðingar allir sem einn af blundi vegna ofanflóðavár sem herjað hefur á fjórðnginn í gegnum tíðina. Þetta eru mál sem varða okkur öll enda vitum við gerla hvað náttúran er óblíð hér þegar dyntir hennar eru annars vegar.

En það eru fleiri mál sem varða okkur Vestfirðinga alla – umhverfismál.

Eiður ÍS-126 var stærstur þeirra báta og skipa sem skemmdust eða eyðilögðust í höfninni á Flateyri í flóðinu. Ekki er mér kunnugt um útgerðarform en get mér til um það út frá stærð skipsins, 30-40 brt. og giska á dragnótaveiðar. Hefur að vonum verið vont að missa hann á miðjum vetri, um hábjargræðistíma.

Ég fer reglulega niður að höfn þegar ég á erindi um Skutulsfjörðinn í höfuðbólið. Kem við í fiskbúðinni enda höfum við ekki slíka í Súðavík. Hef barið þar bryggjublómin Maríu Júlíu og Eið augum og fundið til nokkurrar vorkunnar í garð nágranna okkar. Að hafa þessi aflögðu skip við hafnarbakka í ákveðnu úrræðaleysi. En sl. mánudag, fyrir réttri viku síðan, vantaði eitthvað inn í uppstilinguna á höfninni. Sá þar Maríu Júlíu en Eiður var farinn.

Þetta skýrðist þann sama dag enda fékk ég fyrirspurn frá blaðamanni á DV sem vildi ólmur fá að vita eitthvað meira um málið. Ég leyfi mér að birta póstinn:

„Sæll,

Getur þú athugað fyrir mig hvort, og þá hvenær Súðavíkurhreppur veitti starfsleyfi fyrir rifi og endurvinnslu skips á jörð Garðsstaða í Ísafjarðardjúpi.

Ef svo er, máttu gjarnan senda á mig afrit af leyfinu, ásamt upplýsingum um hvenær málið var rætt í sveitarstjórn ásamt öðrum gögnum málsins. Kær kveðja, HH.“

Ég væri alveg til í það með Heimi blaðamanni að fá svör við því hverjum þótti þetta sniðug hugmynd og hagkvæm að senda skipsflakið með björgunarskipi inn í fjöruna á Garðstöðum. Ekki að okkur í Súðavíkurhreppi hafi verið falið að gefa út starfsleyfi eða að við séum eftirlitsaðilar. Nei, kannski heldur af þeirri ástæðu einni að þessi mál vegna skyldrar starfsemi rata stundum á okkar borð. Af þeim 6-800 bílflökum sem prýða jörðina Garðstaði er ólílkegt að mörg þeirra sé að rekja til Súðavíkurhrepps. En allt að einu erum við hér til fyrirsvars um úrræði vegna meintrar ólöglegrar starfsemi þar.

Eiður ÍS-126 er sem sé kominn á leiðarenda sinn sem aflaskip – bíður niðurrifs í fjörunni við Garðstaði, skammt höfuðbóls með merka sögu. Og var fluttur í fjáröflunarskyni m.a. fyrir björgunarskip Ísfirðinga.

Þrátt fyrir að það sé fyndið á sunnudögum að gera lítið úr þeim annmarka sem þessi bílflök setja á annars óskert útsýni Djúpsins og umgjarðar þess mætti kannski hugsa þennan leik til enda. Því það kemur að skuldadögum með allt, og einn daginn kann þetta að vera erfitt viðureignar að vinda ofan af. Flutningur á 6-800 bílflökum og öðru sem ekki tilheyrir landslaginu á Garðstöðum er ekki fjarlægt án tilheyrandi fjárútláta. Við skulum vona að viðskiptamaðurinn Fura ætli sér þetta á eigin kostnað og það í náinni framtíð. Við gerum ekki lítið úr greiðvikni Garðstaðabræðra eða sparnaði og þrifum annarsstaðar af því að þetta sé flutt og komið snyrtilega fyrir í hreppnum, enda hefur svæðið nýlega verið skipulagt til að geta rúmað þá starfsemi sem þar fer hugsanlega fram.

Kannksi færi ágætlega á því að slík starfsemi væri meira til heimabrúks, að farga bílum, vélum og úrgangi sem virðist leggja leið sína um sveitarfélagið Súðavíkurhrepp í skjóli nætur. Enda hefur ekki verið mikil hrifning af starfseminni í nágrannasveitarfélögunum eftir því sem næst er komið. Í öllu falli væri eitthvað samráð um það hvernig að málum er staðið vel þegið.

Bragi Þór Thoroddsen – sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.  

DEILA