Bolungavík: styður 48 daga strandveiðar og aukinn byggðakvóta vegna línuveiða

Frá Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Bolungavíkur tók fyrir til umræðu í vikunni frumvarp til laga sem liggur fyrir Alþingi um strandveiðar og ráðtöfun nærri 5% aflaheimilda til byggðaaðgerða. Bæjarstjórnin lýsti yfir stuðningi við 48 daga strandveiðar á tímabilinu 1. maí til ágústloka ár hvert. Þá segir í samþykktinni að mikilvægt er að tryggja byggðarlögum þar sem um árabil hefur verið útgerð línubáta með handbeitta línu aukinn byggðakvóta á móti þverrandi vægi línuívilnunar með aukinni beitningavélabáta útgerð.

Samþykkt bæjarstjórnar í heild:

„Bæjarstjórn Bolungarvíkur lýsir yfir stuðningi við strandveiðar og hefur
skilning á mikilvægi þeirra fyrir Bolungarvík og byggðalög á landsvísu. Í
frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006

(atvinnu- og byggðakvótar o.fl.) er mikilvægt að tryggja framgang
strandveiða samhliða því að tryggja að byggðalög sem gert hafa út á
handbeitta línu fái aðlögun í formi almenns byggðakvóta til að bregðast við
fækkun starfa. Strandveiðar eru öflug viðbót við útgerð í Bolungarvík og
mikilvægt að staðið verði vörð um þetta verkefni til framtíðar. Bæjarstjórn
Bolungarvíkur styður framkomnar hugmyndir um 48 daga sóknartímabil á
tímabilinu 1. maí til 31. ágúst.“

DEILA