Bilun Baldurs: Allar leiðir lokaðar

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps harmar það ástand sem upp er komið varðandi bilun í ferjunni Baldri í dag, 11.03.2021 þegar ferjan varð vélarvana um 10 sjómílur frá Stykkishólmi með fjölda farþega um borð. Nú eru allar leiðir til og frá sunnanverðum Vestfjörðum lokaðar þar sem Klettsháls er ófær og ekki hefur verið flogið á Bíldudal í tvo daga. Þetta óöryggi í samgöngum er algjörlega óásættanlegt.

Aðeins er ein aðalvél í ferjunni Baldri og eftir bilun ferjunnar síðastliðið sumar hefur ítrekað verið bent á þennan öryggisbrest í siglingum yfir Breiðafjörð á fundum með Vegagerðinni. Að auki hefur ítrekað verið bent á nauðsyn þess að efla vetrarþjónustu á Vestfjarðavegi 60.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps krefst þess að Vegagerðin og samgönguyfirvöld bregðist við þessari stöðu nú þegar og útvegi aðra ferju sem hentar til siglinga á Breiðafirði án þess að öryggi farþega sé stefnt í hættu á meðan ástand vega er jafn slæmt og raun ber vitni.

Jafnframt krefst sveitarstjórnin þess að Vegagerðin auki þjónustu sína í vetrarmokstri á Klettshálsi og öðrum fjallvegum nú þegar, þannig að hægt verði að tryggja öruggar samgöngur við svæðið.

Ályktun sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps sem samþykkt var á fundi síðdegis.

DEILA