Reykhólar: brothætt byggð

Frá Reykhólum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Reykhólahreppur hefur sótt formlega um að komast inn í verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir. Í bréfi sveitarfélagsins til Byggðastofnunar segir að vísbendingar séu á lofti um breytingar í samfélaginu. Íbúafjöldi í sveitarfélaginu hefur tekið snöggum breytingum frá árinu 2018. Áhrif þess gætir á víða.

Íbúafækkun

Íbúum í Reykhólahreppi hefur fækkað töluvert frá árinu 2018 eða um 15,1%. Ekki hefur verið greind ástæða þessara breytinga en íbúafjöldinn fram að árinu 2018 hafði verið stöðugur í þó nokkur ár segir í bréfinu. Fækkunin hefur verið meiri í þéttbýlinu Reykhólum en í dreifbýli. Um 19% fækkun átti sér stað á Reykhólum á milli áranna 2018 og 2020 en 11,6% í þéttbýlinu.

Sveitarfélagið ekki sjálfbært

Þá segir í erindinu um fjárhag sveitarfélagsins að það sé ekki sjálfbært, þ.e. „skuldbinding sveitarfélagsins gagnvart viðhaldi fasteigna, tækja og áhalda safnast upp að sama skapi.“ Launakostnaður hefur hækkað um 46% síðustu 5 ár, úr liðlega 250 milljónum króna í 400 milljónir króna yfir árið. Á móti hafi útsvör og fasteignagjöld hækkað aðeins um 28%

Sameining sveitarfélaga

Þá kemur fram að ekki sé enn komið til sameiningar við annað sveitarfélag og „það er vilji til þess að Reykhólahreppur haldi stöðu sinni til framtíðar og geti veitt íbúum sínum skjól og verði aðlaðandi kostur fyrir aðra.“

DEILA