Orkuveita Reykjavíkur: þarf að efla öryggi á Vestfjörðum

Yfirlýsig frá Orkuveitu Reykjavíkur vegna ritstjórnargreinar:

Fjárfesting eða offjárfesting

Vegna ritstjórnargreinar sem birtist á vefnum bb.is þann 11.febrúar s.l vill Orkuveita Reykjavíkur koma eftirfarandi á framfæri.

Orkuveita Reykjavíkur sendi að þessu sinni ekki umsögn um kerfisáætlun Landsnets. Á síðustu árum hefur fyrirtækið hins vegar almennt hvatt Landsnet til þess að beina sjónum að þeim svæðum þar sem afhendingaröryggi er ekki viðunandi í stað þess þunga sem lagður hefur verið til dæmis í rándýr og umdeild áform um hálendislínu.

Dótturfyrirtæki OR, Orka náttúrunnar, sendi Landsneti og síðar Orkustofnun umsögn um þá kerfisáætlun sem nú er til umfjöllunar. Þar er einnig varað við offjárfestingum, sem landmenn allir munu bera kostnaðinn af, en sjónum er einnig sérstaklega beint að vandanum á Vestfjörðum. Í umsögn ON sem finna má á vef Orkustofnunar segir:

„Uppbygging kerfis er eðlileg og getur verið bráðnauðsynleg til að anna vaxandi notkun. Þar sem slíkar aðstæður eru við lýði, t.d. á Vestfjörðum í auknum umsvifum í fiskeldi og vinnslu kalkþörunga er fráleitt að mótmæla uppbyggingu. ON telur t.d. eðlilegt að endurnýjun tengivirkis í Breiðadal skuli færð framar í framkvæmdaáætlun Landsnets, til samræmis við óskir Orkubús Vestfjarða. Öðru gegnir þegar kemur að almennum styrkingum og endurnýjunum flutningskerfis, þar sem engin aukning í notkun fylgir framkvæmdum. Þar ber Landsneti að jafnaði að fjárfesta sem nemur afskriftum félagsins. Að öðrum kosti er verið að íþyngja núverandi notendum.“

Þetta er nú öll óvildin í garð Vestfirðinga.

Afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum þarf að efla og nú veit ritstjóri bb.is hvar hann á liðsauka í því verkefni.

DEILA