MÍ setur upp söngleikinn Hárið

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði ræðst í það stórvirki að setja upp söngleikinn Hárið nú á útmánuðum. Sýningar verða ekki á sólrisuhátíðinni eins og venja er heldur aðeins seinna. Það er kórónuveirufaraldurinn sem setur strik í þann reikning þetta árið. Frumsýning verður 19. mars og verða sýningar í Edinborgarhúsinu fram að páskum.

Leikstjóri er Gunnar Gunnsteinsson. Gunnar sagði í samtai við Bæjarins besta að Hárið hefði ekki áður verið sýnt á Vestfjörðum. Það væri tilvalið að kynna söngleikinn fyrir ungu kynslóðinni, en bæði foreldrar hennar og afar og ömmur þekkja þennan vinsæla söngleik frá hippatímanum á síðustu öld. „Við þurfum kannski að fá ljósið inn í lífið á þessum tímum.“ Um 30 manns koma að sýningunni að sögn Gunnars, 22 leikarar og auk þess 8 manna hljómsveit, nær allir nemendur við skólann.

Söngleikurinn Hárið er eftir Gerome Ragni og James Rado.  Tónlist eftir Galt MacDermont.  Þýðing Davíðs þórs Jónssonar.

Rglur heimiluðu 30 manns á hverri sýningu og tók val verksins mið af því. Nú hefur þeim verið breytt og mega vera 150 manns á sýningunni en tveggja metra reglan gildir. Gunnar taldi að um 80 -90 manns gætu verið í Edinborgarsalnum miðað við þær. Ef nálægðarreglan yrði 1 metri í stað tveggja væri líklega hægt að hafa 150 manns á hverri sýningu.

DEILA