Ísafjarðarbær styður bruggara

Dokkan Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar styður framkomið frumvarp dómsmálaráðherra sem heimilar smásölu á framleiðslustað „enda mun það hafa jákvæð áhrif á minni brugghús til uppbyggingar atvinnulífs, sérstaklega á landsbyggðinni.“

Þetta kemur fram í síðustu fundargerð bæjarráðs.

Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað að fengnu framleiðslusöluleyfi hjá sýslumanni. Þetta á við um þá framleiðendur sem framleiða minna en 500.000 lítra af áfengi á
almanaksári.

Handhafa framleiðslusöluleyfis verður heimilt að selja áfengt öl, gerjað úr möltuðu eða ómöltuðu korni, sem er að rúmmáli ekki meira en 12% af hreinum vínanda, í smásölu á framleiðslustað.

Óheimilt verður að gefa út framleiðslusöluleyfi ef sveitarstjórn leggst gegn útgáfu leyfisins, og skal framleiðslusöluleyfi jafnframt bundið þeim skilyrðum sem fram kunna að koma í umsögn.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. :

„Lagt er til að smærri brugghúsum verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað. Frumvarpinu er ætlað að styðja við smærri brugghús, sérstaklega á landsbyggðinni, en umtalsverð gróska hefur verið hérlendis í bruggun áfengs öls á síðastliðnum árum.
Þannig eru tugir smærri brugghúsa starfandi um allt land, sem framleiða fjölbreytt úrval afurða með skírskotun til íslenskrar menningar og staðhátta. Við gerð frumvarpsins var meðal annars horft til lagasetningar annars staðar á Norðurlöndunum en í nágrannalöndum Íslands er smærri
brugghúsum almennt heimilt að selja áfengt öl í smásölu, þó með mismunandi takmörkunum.
Sérstaklega var horft til lagasetningar í Finnlandi en árið 2018 tóku gildi lög þar í landi sem heimila sölu áfengs öls á framleiðslustað í smásölu til neytenda með ákveðnum takmörkunum.“

DEILA