Haraldur Benediktsson vill áfram leiða lista sjálfstæðismanna

Í viðtali í blaðinu Skessuhorni á Vesturlandi segir Haraldur Benediktsson, alþm að hann stefni ótrauður að því að leiða áfram lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.

Ákveðið verður á næstunni með hvaða hætti framboðslisti Sjálfstæðisflokksins verður ákveðinn, hvort sem það verður með uppröðun eða prófkjöri. Aðalfundur kjördæmisráðs verður í mars. Þórdís K. Gylfadóttir þingmaður flokksins, varaformaður og ráðherra hefur lýst því yfir að hún vilji vera áfram til forystu í flokknum og Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður stefnir að því að fá þingsæti.

Í viðtalinu við Skessuhorn segir Haraldur: „Þótt ég hafi lítið gefið uppi fram að þessu hef ég tekið þá ákvörðun að óska eftir endurkjöri til að leiða listann, en auðvitað eru það flokksmenn sem ráða því þegar upp verður staðið.“

Vildi að Þórdís yrði ráðherra

Um ráðherraembætti segir Haraldur í viðtalinu: „Þegar verið var að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar árið 2016 kom að hinu hefðbundan ráðherravali. Ég hins vegar hafði ekki trú á samstarfi við þessa flokka og því miður reyndist það ekki vera út í loftið.  Bjarni Benediktsson formaður stóð auk þess frammi fyrir þeirri áskorun að hafa sem jafnasta kynjaskiptinu í ráðuneytunum sem féllu í hlut flokksins. Ég stakk því upp á að hann biði Þórdísi ráðherrastól. Við síðustu stjórnarmyndun hafði Sjálfstæðisflokkurinn færri ráðherrastóla úr að spila og studdi ég áfram að Þórdís fengi einn þeirra. Fannst það skipta kjördæmið miklu máli að við ættum þar sæti. Áfram hafði ég og hef mikinn metnað fyrir þeim verkefnum sem mér er trúað fyrir en ákvað að metnaði mínum yrði best fundinn farvegur með að sinna þingmennskunni og tel mig hafa orðið þar að liði.“

Ljósleiðaravæðingin stærsta byggðamálið

Haraldur segist einna stoltastur af ljósleiðaravæðingu landsbyggðarinnar, en nefnir einnig átak í þriggja fasa rafvæðingu, sem hófst í Borgarbyggð, og jöfnun dreifikostnaðar raforku.

DEILA