Flateyri: bæjarráð vill ekki breyta reglum um byggðakvóta

Aldan ÍS 47 við bryggju á Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir í vikunni erindi Gísla Jóns Kristjánssonar, f.h. ÍS 47 ehf. og Sólbergs ehf , dags. 4. febrúar 2021, þar sem fram koma tillögur um breytingar á reglum fyrir byggðalagið á Flateyri fyrir fiskveiðiárið 2020/2021.

Lagt er til að byggðakvóta verði í samræmi við veiðireynslu t.d. síðastliðna þriggja ára m.v. landaðan afla, unninn á Flateyri.
Ástæða fyrir því að leggja til að miða við síðustu þrjú ár eru að því er fram kemur í erindinu náttúruhamfarir, gjaldþrot fyrirtækja og hraðar breytingar í efnahagslífinu á Flateyri, Covid 19 og auk þess erfiðleikar í vinnslu. Þá segir að úthlutun síðasta árshafi verið svo seint að aðilar gátu illa nýtt heimildina. Reglurnar verði gerðar þannig úr garði að störf skapist á Flateyri.

Í afgreiðslu bæjarráðs segir að það telji óheppilegt að breyta reglunum á núverandi fiskveiðiári, en er tilbúið að skoða breytingar fyrir næsta fiskveiðiár með það markmiði að styðja betur við vinnslu afla á Flateyri, ásamt því að óska eftir samráði við hlutaðeigandi aðila.

DEILA