Fjölnet og PREMIS sameinast

Frá vinstri, Pétur Ingi Björnsson, Sigurður Pálsson, Kristinn Elvar Arnarsson. Mynd: aðsend.

Upplýsingatæknifélögin Fjölnet og PREMIS hafa sameinast. Sérsvið félagana er rekstur tölvukerfa (e. Managed Service Provider), alrekstursþjónusta og hýsing. Auk þess sinna félögin fjölbreyttri þjónustu á sviði upplýsingatækni. Áætluð velta sameiginlegs félags á árinu 2021 er á annan milljarð. Við viðskiptin verða Sigurður Pálsson og Pétur Ingi Björnsson eigendur Fjölnets starfandi hluthafar PREMIS. Félögin munu starfa undir nafni PREMIS með starfsstöðvar á Sauðárkróki og í Reykjavík.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félögunum.

„Það er mikil samlegð með rekstri þessara félaga og í krafti aukinnar stærðar munum við geta boðið enn betri þjónustu og aukið lausnaframboð á frábærum verðum. Við náum einnig að mæta aukinni kröfu um öryggisfjarlægðir með hýsingu gagna bæði í Reykjavík og á Sauðárkróki. Fjölnet eykur okkar þekkingu og á sama tíma vonumst við til að geta boðið enn betri þjónustu á Norðurlandi með þessari sameiningu“, sagði Ísfirðingurinn Kristinn Elvar Arnarson forstjóri PREMIS.

„Við sjáum mikil tækifæri í þessari sameiningu og hlökkum til að kynna viðskiptavinum aukið lausnaval sem við getum nú boðið upp á. Einnig er mikilvægt fyrir okkur að með þessu styrkjum við hýsingarsal okkar á Sauðárkróki og er ánægjulegt að geta aukið uppbyggingu á sviði upplýsingatækni á Norðurlandi“, sagði Sigurður Pálsson framkvæmdastjóri Fjölnets.

Sameiginlegt félag er með ríflega 50 starfsmenn.

DEILA