Er ekki kominn tími á að sækja fram?

Ég sé að það hefur skapast nokkur umræða um þá tillögu að hefja söluferli á íbúðum bæjarins á Hlíf. Samtals tæplega 30 íbúðum. Umræðan virðist snúast um tvennt. Annarsvegar að íbúum skuli hafa verið sent bréf þar sem að þessi fyrirætlan er kynnt og hinsvegar að það eigi að henda öllum út.Varðandi bréfið, þá var það mat þeirra sem þjónusta íbúa á Hlíf að lang besta leiðin til að koma skilaboðum til íbúa þar sé að senda bréf. Með því móti er hægt að sýna aðstandendum það og fara yfir skilaboðin eins og þau koma og fólki boðið að hafa samband. Ég ætla ekkert að fullyrða um þetta og eflaust margar leiðir færar í þessu en þetta var mat þeirra sem vit hafa á þessu. Í annan stað snýst tillagan um að finna annan aðilia en Ísafjarðarbæ til að kaupa þessar íbúðir og leigja út. Helst aðila sem hefur hagnað ekki að megin markmiði. Ekki eru neinar fyrirætlanir um að segja fólki upp leigu né hækka leigu. En hvers vegna erum við að þessu. Að mínu mati er helsta vandamál við rekstur bæjarins að umfang hans er of mikið. Í dag eigum við um 127 íbúðir í útleigu. Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert sveitarfélag á eins margar íbúðir á höfðatölu. Eða um eina íbúð á hverja 30 íbúa. Það verður að teljast ríflegt. Með þessum íbúðum höfum við verið að greiða árlega allt að 100 m.kr. á ári. Á hverju ári. Það hefur gert það að verkum að síðast liðna áratugi höfum við ekki geta komið að neinum fasteignauppbyggingarverkefnum sem neinu nemur. Það er því eindregin skoðun mín að reyna að selja sem mest af þessum eignum, lækka með því skuldir sem nemur hátt í tveimur milljörðum og allt að þremur milljörðum ef við getum selt hjúkrunarheimilið líka. Samhliða myndu tekjur bæjarins aðeins lækka um rúmleaga 200 m.kr. á ári. Það myndi gera það að verkum að við myndum hafa lækkað skuldir um hátt í helming en höldum nánast sömu tekjum. Fjárhagur bæjarins bætist árlega um tugi milljóna og við getum haldið áfram að sækja fram. Tekið þátt í því að byggja fleiri íbúðir fyrir aldraða og aðra sem yrði þá innspýting í bæinn okkar. Er það ekki betra en að halda áfram þessari vegferð næstu árin og hefur haldið okkur kverkataki í áratugi. Er ekki kominn tími á að sækja fram?

Daníel Jakobsson

DEILA